Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) hefur ákveðið að lækka langtíma lánshæfismat norska tryggingafyrirtækisins NEMI Forsikring í kjölfar kaupa Tryggingarmiðstöðvarinnar (TM) á 89,6% hlut í félaginu.

Lánshæfismatið lækkar úr BBB í BBB-mínus og kemur til greina að lækka lánshæfismatið enn frekar, eða um tvö þrep í BB. Kauptilboð TM í NEMI verðmetur félagið á 887 milljónir norskra króna, sem samsvarar um 9,6 milljörðum íslenskra króna

Lækkun á lánshæfismati NEMI stuðlar að því að fjármögnunarkostnaður fyrirtækisins mun hækka töluvert og leiða má líkur að því að norska fyrirtækið þurfi að greiða enn meira fyrir lánsfé ef S&P ákveður að lækka lánshæfismatið í ruslflokk (e. junk rating), sem lánshæfismat sem er lægra enn BBB-mínus er nefnt.

S&P segir að ástæða lækkunar lánshæfismatsins sé skuldsetning NEMI í tengslum við kaup TM á meirihluta í félaginu, en kaupin eru að mestu leyti fjármögnuð með víkjandi lánum (e. subordinated loans), sem greiða mun hærri vexti en lán ofar í skuldastiganum (e. senior debt).

"Lækkun lánshæfismatsins endurspeglar mikla skuldsetningu félagsins vegna yfirtökunnar, sem fjármögnuð er með víkandi lánum," segir Peter McClean, sérfræðingur hjá S&P. Hann segir ákvörðunina einnig endurspegla veikan tekjugrunn TM, sem hefur fjárfest verulega í hlutabréfum í Kauphöll Íslands, og slakan árangur af tryggingastarfsemi íslenska fyrirtækisins.

S&P segir að ef NEMI væri áfram sjálfstætt fyrirtæki myndi afstaða fyrirtækisins ekki breytast. Hins vegar segir matsfyrirtækið að með nýjum eigendum dragi úr sveigjaleika og fjárstyrk norska félagsins. S&P mun áfram fylgjast með NEMI og segir að vaktina megi rekja til óvissu sem skapast hafi við kaup TM á 89,6% hlut í félaginu.

Fjármálaeftirlit Noregs hefur samþykkt yfirtöku TM á NEMI og er félaginu heimilað að eiga allt að 100% af útistandiandi hlutum í norska félaginu. TM greindi frá því að í síðasta mánuði að félagið hefur aukið eignarhlut sinn í 90%.

Tap var af rekstri TM á fyrstu sex mánuðum ársins 2006 og nam tapið 624 milljónum króna, samanborið við tæplega 2,9 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2005. Óskar Magnússon, forstjóri TM, sagði afkomuna enduspegla þá þróun sem orðið hefur á hlutabréfamarkaði síðustu mánuði. Einnig var töluvert tap af vátryggingarstarfseminni, en það nam 291 milljón króna.