Bandaríska fjárfestingarfélagið Bain Capital hefur tilnefnt Matthew Evans í stjórn Icelandair samhliða fyrirhuguðum kaupum á 16,6% hlut í flugfélaginu fyrir 8,1 milljarð króna. Icelandair hefur boðað hluthafafund klukkan 16 þann 23. júlí næstkomandi þar sem hluthafar munu kjósa um aðkomu Bain Capital en til þess þurfa hluthafar að falla frá forkaupsrétti á nýju hlutafé.

Sjá einnig: Kaupa 16,6% í Icelandair á 8 milljarða

Fjárfesting Bain í Icelandair, sem yrði í formi hlutafjáraukningu, er háð því skilyrði að Evans verði kosinn í stjórn flugfélagsins. Úlfar Steindórsson stjórnarformaður mun víkja fyrir Evans en Úlfar hefur setið í stjórn Icelandair frá árinu 2010. Ekki kemur fram hver tekur við stjórnarformennskunni af Úlfari en Svafa Grönfeldt er varaformaður stjórnar Icelandair.

Matthew Evans var ráðinn til Bain Capital Credit árið 2009. Hann er framkvæmdastjóri rannsóknarteymis á skrifstofum Bain í New York. Þar hefur hann umsjón með fjárfestingum í ýmsum geirum, þar á meðal fluggeiranum. Í tilkynningu Icelandair segir að Evans sitji í stjórn fjölda fyrirtækja í fjárfestingarsafni Bain Capital. Hann hafi einnig leitt þróun á ýmsum samstarfsverkefnum innan fluggeirans.