„Við setjum töluvert af fjármunum inn í reksturinn," segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, um þá fyrirætlan flugfélagsins að kaupa rekstur Ferðaskrifstofu Íslands. Gengið var frá viljayfirlýsingu þar um í gær.

Nái samningar fram að ganga verður hægt að tryggja áframhaldandi rekstur ferðaskrifstofunnar. Fram kom í máli forstjóra ferðaskrifstofunnar í samtali við Viðskiptablaðið í gær að gengisfall krónunnar á síðasta ári hefði komið illa við reksturinn.

Matthías segir að þreifingar og viðræður hafi staðið yfir milli ferðaskrifstofunnar og Iceland Express undanfarnar vikur. Um helgina hafi svo komist hreyfing á málin og á sunnudag var, eins og áður sagði, gengið frá viljayfirlýsingu.

„Þetta er spennandi vörumerki og samlegðaráhrifin eru mikil, til að mynda varðandi nýtingu á vélum og fleiru," segir hann.

„Við mátum það þannig að það væri gríðarlega vont ef þeir myndu hrökklast af markaðnum. Það myndi veikja hann mjög og því teljum við þetta vera heillaspor. Annars hefðum við ekki tekið þátt í þessu."

Hann vill ekki gefa upp kaupverðið enda eigi enn eftir, segir hann, að ganga frá ýmsum lausum endum.

Fresta þurfti flugi milli Íslands og Tenerife síðasta sólarhring vegna fjárhagserfiðleika. Með kaupum flugfélagsins á rekstrinum telur Matthías að ekki verði fleiri tafir vegna rekstrarerfiðleika.

Iceland Express er í eigu Fons, félags Pálma Haraldssonar.