Ákveðið var á hluthafafundi Wow air þann 8. ágúst síðastliðinn að Matthías Imsland gangi úr stjórn fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til fyrirtækjaskrár. Matthías Imsland mun þó áfram gegna starfi framkvæmdastjóra hjá Wow air.

„Þar sem ég er framkvæmdastjóri hjá Wow air þá tíðkast það ekki að starfsmenn séu einnig í stjórn,“ segir Matthías í samtali við Viðskiptablaðið. Matthías mun gegna starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Wow air áfram.

Hörður Bender hefur tekið sæti í stjórn fyrirtækisins í stað Matthíasar. Aðrir í stjórn félagsins eru þau Skúli Mogensen, Björn Ingi Knútsson, Davíð Másson og Liv Bergþórsdóttir. Hörður er forstjóri og einn eigenda Folkia, smálánafyrirtækis sem starfar á Norðurlöndunum og í Eistlandi samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins.