Eimskipafélag Íslands hefur ráðið Björn Einarsson yfir nýju sviði samhliða skipulagsbreytingum þar sem stöðugildum í félaginu hefur fækkað um 14 hjá bæði Eimskip og dótturfélaginu TVG-Zimsen. Þar á meðal hættir Matthías Matthíasson sem hefur verið framkvæmdastjóri Sölusviðs félagsins.

Björn Einarsson, sem starfað hefur hjá Eimskip og dótturfélögum þess í 14 ár, þar á meðal sem framkvæmdastjóri Eimskips í Evrópu með aðsetur í Hollandi, tekur nú við sem framkvæmdastjóri ný samþætts Sölu- og viðskiptastýringarsviðs. Nýja sviðið tekur yfir innflutning og útflutning auk flutningsmiðlunarinnar TVG-Zimsen, þar sem hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri síðustu ár.

Þá er Björn einnig formaður Knattspyrnufélagsins Víkings í Reykjavík og bauð sig fram gegn Guðna Bergssyni sem formaður KSÍ árið 2017.

Björn, sem er fimm barna faðir, er með BA í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og er giftur Kötlu Guðjónsdóttur, segist fullur tilhlökkunar á að takast á við samþættinguna.

„Með öflugri liðsheild okkar reynslumikla starfsfólks, sterkum vörumerkjum og þeim styrku stoðum sem félagið okkar byggir á munum við viðhalda góðri þjónustu en jafnframt sækja fram af metnaði og bjóða uppá bestu lausnir hverju sinni fyrir viðskiptavini okkar og markaðinn í heild sinni,“ segir Björn.

Stjórnendur á nýja sviðinu eru auk Björns, Sara Pálsdóttir sem leiðir Innflutning, Sigurður Orri Jónsson sem leiðir Útflutning og Elísa D. Björnsdóttir sem tekur við sem framkvæmdastjóri TVG-Zimsen af Birni Einarssyni á þessum tímamótum. Þá leiðir Arndís Aradóttir Tollskýrslugerð og farmskrá og Andrés Björnsson mun leiða Viðskiptaþróun og kostnaðareftirlit.

Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri segir:

„Með þessari breytingu erum við að einfalda skipulag og verðum betur í stakk búin til að auka snerpu í samskiptum og þjónustu við viðskiptavini okkar. Við höldum áfram á vegferð hagræðingar og samþættingar á sama tíma og við eflum slagkraftinn í sókninni. Þá verðum við í enn betri stöðu til að veita viðskiptavinum, fyrirtækjum og einstaklingum, góða þjónustu og heildarlausnir sem byggja meðal annars á gámasiglingakerfinu okkar sem er það öflugasta til og frá Íslandi.“