Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefur ráðið Matthías Pál Imsland sem aðstoðarmann sinn.

Matthías er 41 árs. Hann lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands í stjórnmálafræði og síðar MS-prófi frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Þá hefur hann stundað nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og stjórnunarnám við North Park University í Chicago í Bandaríkjunum.

Matthías hefur undanfarin ár starfað sem aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Áður vann hann sem ráðgjafi fyrir erlend fyrirtæki á sviði framtaksfjárfestinga.

Matthías starfaði um tíma í opinberri stjórnsýslu, fyrst sem sviðsstjóri fræðslu-, félags- og menningarsviðs á Blönduósi og síðar í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Að loknu námi starfaði hann hjá Símanum við ýmis stjórnunarstörf.

Samkvæmt tilkynningu verða verkefni Matthíasar í forsætisráðuneytinu verða meðal annars á sviði stefnumörkunar og samræmingar til að styðja við forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar.

Forsætisráðherra hefur haft einn aðstoðarmann, Jóhannes Þór Skúlason, frá því að Ásmundur Einar Daðason lét af starfi aðstoðarmanns á síðasta á ári. Með ráðningu Matthíasar verða aðstoðarmennirnir aftur tveir.