Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Eplis, hefur verið viðloðandi sölu á Apple varningi meira og minna í hartnær þrjá áratugi. Skakkiturn ehf, sem rekur verslun Eplis, er umboðsaðili Apple á Íslandi og Bjarni, sem keypti sig inn í reksturinn á ný í miðju efnahagshruni eftir að hafa selt sig út ári áður, hefur marga fjöruna sopið í bransanum.

Í nóvember 2011 fékk Epli sekt upp á eina og hálfa milljón króna frá Neytendastofu vegna auglýsingar um að „engir vírusar“ væru í Apple tölvum. Að mati Neytendastofu var auglýsingin villandi og til þess fallin að blekkja neytendur. Bjarni stendur hins vegar við þessa fullyrðingu þó hann megi ekki nota hana í auglýsingum.

„Ég hef verið dæmdur fyrir að auglýsa að Apple tölvur fái ekki vírusa en það er satt. Ég held að flestir veirusérfræðingar geti staðfest að þær fá ekki þessa vírusa, við seljum 9.000 tölvur á ári og aldrei hefur komið tölva hérna inn með vírus. En við megum ekki segja það,“ segir Bjarni.

Stendur við gagnrýnina á framkvæmdastjóra IKEA

Bjarni vakti mikla athygli í fyrrasumar þegar hann skrifaði harðorðan pistil til Þórarins Ævarssonar, framkvæmdastjóra IKEA, í kjölfar þess að sá síðarnefndi tilkynnti um verðlækkun hjá húsgagnarisanum og hvatti aðrar verslanir til að feta í sömu fótspor. Sagði Bjarni að Þórarinn væri froðusnakkur sem tókst að fá ókeypis auglýsingar í tvo daga með framferði sínu.

„Ég stend við það ennþá, þetta var svo mikið kjaftæði. Allir voru að pínast þarna og ég held þeir lækki verðið einu sinni á ári. Á sama tíma eru eigendurnir að taka sér út stórfelldan arð, maður byrsti sig aðeins yfir þessu,“ segir Bjarni.

„Það sem pirraði mann svolítið var að Morgunblaðið var heltekið af þessu, þetta var birt á forsíðu Morgunblaðsins og þótti alveg svakalegt mál. Svo var þetta bara markaðsbrella og menn fóru ekkert ofan í það. Þetta var leið til að vekja á sér athygli en þeir segja væntanlega ekki frá því að þeir hækka verðið þegar gengið fer upp, þeir tilkynna það ekki sérstaklega.“