Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis vegna sölunnar á Búnaðarbankanum til S-hópsins svokallaða lýsti vonbrigðum með að þýska fjármálaeftirlitið hafi ekki veitt aðstoð við rannsókn nefndarinnar.

Kjartan Bjarni sagði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær að nefndin hafi ekki haft nógu skýrar og afdráttarlausar heimildir til að knýja á um svör að því er segir í Morgunblaðinu .

Hafi nefndin óskað eftir upplýsingum frá þýska fjármálaeftirlitinu um eignarhald á aflandsfélaginu Dekhill Advisors Limited, sem fékk 46,5 milljónir bandaríkjadala af bankareikningi aflandsfélagsins Welling & Parters sem var skráð á Tortola.

„Nefndin hefur ekki óhyggjandi gögn um það hverjir það hafi verið,“ sagði Kjartan Bjarni, en hann nefndi að Kaupþing hefði borið alla áhættu af samningunum og að leiða mætti líkur að því að félagið eða tengdir aðilar hafi notið ávinningsins.

„Auðvitað starfa stofnanir eftir ákveðnum lagaheimildum og maður hefur fullan skilning á því að þýska fjármálaeftirlitið getur ekki afhent okkur gögn ef það hefur ekki heimild til þess,“ er haft eftir Kjartani Bjarna á Vísi .

„En það eru engu að síður vonbrigði að það geti ekki liðsinnt okkur. Þeir gáfu þá skýringar að vegna ákvæða um þagnarskyldu gætu þeir einungis greint FME hér á landi frá atriðum sem vörðuðu við fjármálaeftirlit.“

Kjartan Bjarni segir að draga megi þann lærdóm af sölu ríkisins á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003 sem nefndin hafði til skoðunar að ákvæði séu til í íslenskum lögum sem geti knúið þá aðila sem komi að slíkum kaupum til að segja sannleikann.