Héraðsdómur hefur rift víkjandi láni Stoða, áður FL Group, til Teymis og breytt því í almenna kröfu, sem breytt verður í hlutafé. Héraðsdómur vitnar í matsgerð dómskvaddra matsmanna, þar sem segir að fjárhagsleg staða Teymis hafi verið slík um mitt ár 2008 að félagið gat ekki staðið við þær skuldbindingar sem þá hvíldu á félaginu, hvað þá þegar 656 milljóna króna skuld bættist þar ofan á. Þá hafi verið ljóst af opinberum upplýsingum að rekstrarafkoma bæði Stoða og Teymis hafi verið mjög slæm, gífurlegt tap hafi verið af fjárfestingum Stoða og að eigið fé þeirra færi lækkandi. Þá minnist dómurinn á náin tengsl fyrirtækjanna tveggja, en Baugur Group var ráðandi hluthafi í þeim báðum, beint eða óbeint. Vegna þessara tengsla verði sú ályktun dregin að Teymi hafi hlotið að vera kunnugt um erfiða fjárhagsstöðu Stoða á þeim tíma sem lánasamningurinn var gerður, sem og að litlar sem engar líkur væru á að Teymi gæti greitt lánið á gjalddaga.