Nýja Stjörnustríðsmyndin, sem ber undirtitilinn “The Force Awakens” eða á íslensku ‘Mátturinn vaknar’, hefur slegið öll met í miðasölu. Á einungis einum mánuði hefur miðasala í bandaríkjunum numið 812 milljónum bandaríkjadala, eða 105 milljörðum íslenskra króna.

Þegar fyrsta Star Wars myndin, “A New Hope” kom út, sló hún sömuleiðis sölumet, en þá seldust miðar á hana fyrir 460 milljónir bandaríkjadala. Við fyrstu skoðun mætti halda að á einum mánuði hafi nýjasta kvikmyndin slegið hinni fyrstu tvöfalt við.

Svo er hins vegar ekki - þegar tekið er tillit til verðbólgu . Ef 460 milljónir dala árið 1977 eru núvirtir fæst út að sala á “A New Hope” hefði numið einhverjum 1,5 milljarði bandaríkjadala, eða tæplega 200 milljörðum íslenskra króna.

Raunar var söluhæsta mynd allra tíma gefin út árið 1939, en það var hin klassíska Gone With The Wind, með þau Clark Gable og Vivian Leigh í aðalhlutverkum - miðasala á myndina nam 1,7 milljarði núvirtra bandaríkjadala.

Það að telja miðasölur alltaf til nafnvirðis en ekki raunvirðis hefur gert kvikmyndaiðnaðinum kleift að láta virðast sem hann sé í sífelldum vexti.

Á hverju sumri er tilkynnt um að met hafi verið slegin, og að árið í ár sé það besta frá upphafi sögunnar. Þá er aðra sögu að segja, sé tekið tillit til þess hversu mikil gæði er raunverulega hægt að kaupa fyrir peningana að hverju sinni.