19. liður ákæru Ríkislögreglustjóra gegn forráðamönnum Baugs lýtur að meðferð þeirra með bréf í félaginu Baugi.net. Viðskiptin fólu í sér kaup á 5% hluti í Baugi.net á 50 milljónir króna þannig að félagið var metið á einn milljarð króna á þessum tímapunkti. Kaupandi var einkahlutafélagið Fjárfar, sem Jón Ásgeir stjórnaði, en seljandi var Baugur. Það var hins vegar Baugur sem lánaði fyrir kaupunum sem voru látin ganga til baka einu og hálfu ári eftir að þau höfðu átt sér stað.

Það eru þeir Jón Ásgeir Jóhannessoni og Tryggvi Jónsson sem sæta ákæru fyrir þennan lið. Þeim er gefið að sök að hafa hinn 30. júní 2000 misnotað aðstöðu sína þegar þeir lánuðu, án lánasamnings, trygginga eða ábyrgða fyrir kaupunum. Viðskiptin gengu til baka hinn 21. febrúar 2002. Í athugasemd sakborninga vegna málsins segir: "Hér er um að ræða viðskiptalán sem eru heimil og var að fullu endurgreitt. Ekki getur verið um fjárdrátt eða umboðssvik að ræða þar sem allan auðgunarásettning skorti, engin leynd ríkti um lánveitinguna auk þess sem lánið var að fullu endurgreitt og fól því ekki fyrir sér áhættu fyrir Baug. Þá var Fjárfar hluthafi í Baugi á þessum tíma." Í svari sakborninga er einnig vísað í álitsgerð Jónatans Þórmundssonar lagaprófessors sem gerð var opinber 2. júlí sl. þegar greint var frá ákærunum. Þessi liður fellur undir þriðja lið ákærunnar en þar er ákært fyrir fjárdrátt og umboðssvik.

Í dag hefur Baugur.net enga sjálfstæða starfsemi en augljóst er að á sínum tíma ríktu miklar væntingar til starfsemi félagsins. Lénið baugur.net er ekki einu sinni í eigu þeirra lengur. Baugur.net var ætlað að halda utan um umsvif Baugs á netinu og var kynnt sem netsjóður Baugs hf. Markmið sjóðsins var að fjárfesta í efnilegum fyrirtækjum sem sérhæfa sig í hverju því sem tengist verslun og Netinu. Stofnfé sjóðsins var 50 milljónir króna en ætlunin var að bætta við það eftir þörfum,

Snemma árs 1999 keypti Baugur.net póstverslun Hagkaups, sem hafði verið starfrækt frá árinu 1959. Baugur.net, keypti í lok nóvember 2000 20% hlut í Kauptorgi.is, sem var ætlað það hlutverk að vera uppboðsvefur á Netinu, en Kauptorg var ætlað að gera fólki kleift að kaupa og selja nýjar og notaðar vörur á Netinu. Aðrir hluthafar í Kauptorgi voru Landssíminn, Talenta, og Magnús Bergsson, sem var stofnandi félagsins. Baugur.net var þá jafnframt með samninga um rekstur vefverslana fyrir Arcadia og Debenhams á Norðurlöndum. Sömuleiðis var Baugur.net skráður eigandi að léninu femin.is sem eignaðist visi.is um tíma. Baugur.net fjárfesti einnig í strik.is og átti um 3,3% hlut þar.

Meðal annarra fjárfestinga Baugs.net má nefna buynational.com. Frá og með maí 2000 voru Talenta-Internet hf. og Baugur.net hf. meirihlutaeigendur buynational.com með samtals 67% hlutafjár. Voru uppi ráðagerðir um að koma á fót keðju netverslana með þjóðlegar vörur um allan heim.

Í maí 2002 var starfsemi Baugs.net feld undir starfsemi Baugs - fjárfestingar og þróunar sem Jón Scheving Thorsteinsson veitti forstöðu þá.