Samkvæmt erfðaskrá Sonju de Zorrilla, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, áttu allar hennar eigur að henni látinni að renna í minningarsjóðinn Sonja Foundation að undanskilinni Rolls Royce bifreið hennar og 200 þúsund dollurum, um 26 milljónum króna að núvirði.

Margt hefur verið á huldu um fjármál sjóðsins frá stofnun hans ársins 2003 sem og umfang auðæfa Sonju. Takmarkaðar upplýsingar hafa fengist um sjóðinn fram að ítarlegri umfjöllun Viðskiptablaðsins í síðustu viku . Þar kom fram að samkvæmt ársreikningum sjóðsins hefðu runnið um 3,5 milljónir dollara, um hálfur milljarður króna, úr dánarbúi Sonju í sjóðinn.

Sjá einnig: Sjóður Sonju de Zorrilla fundinn

Sjóðnum er ætlað að styðja við heilsu og menntun barna á Íslandi og í Bandaríkjunum og hefur megninu af fénu sem rann í sjóðinn þegar verið úthlutað til ýmissa góðgerðamálefna. Yfir 80% af úthlutunum sjóðsins hafa verið veitt í Bandaríkjunum en þá hafa dætur Guðmundar einnig fengið námsstyrki úr sjóðnum.

Í erfðaskrá Sonju, sem lögð var fram fyrir dóm í Bandaríkjunum eftir andlát hennar árið 2002, er tilgreint að John J. Ferguson, sem þá hafði verið lögfræðingur hennar í tíu ár, og Guðmundur A. Birgisson, frændi hennar, skyldu fara fyrir dánarbúi hennar sem og minningarsjóðnum Sonja Foundation.

Sjá einnig: „Aðalverðmætin“ komu frá ástmanni Sonju

Erfðaskráin er frá árinu 1999, um þremur árum fyrir andlát Sonju, en henni fylgir sérstök yfirlýsing frá Sonju, dagsett þann 15. júní 1999. Þar kemur fram að erfðaskráin sé alfarið í samræmi við óskir og vilja hennar sjálfrar og hvorki lögfræðingurinn, John J. Ferguson, né nokkur sem starfi á sömu lögmannsstofu og hann, hafi haft nokkur áhrif á vilja hennar.

Sögð eiga undir 2,5 milljónum dollara

Í dómsskjölunum í Bandaríkjunum er að finna yfirlýsingu um áætlaðar eignir Sonju frá því í júní 2002 sem sagðar voru vera innan við 2,5 milljónir dollara. Sérstaklega voru tilgreindar eignir upp á um 1,9 milljónir dollara, rúmlega 600 þúsund dollarar á verðbréfareikningi og 300 þúsund dollarar á bankareikningi, bæði í New York. Þá voru eignir hennar á Íslandi metnar á eina milljón dollara. Þó virðist sem um vanmat á eignum hennar hafi verið að ræða því 3,5 milljónir dollara runnu í styrktarsjóðinn eftir að búið var að selja allt úr dánarbúinu sem ekki hafði verið ánafnað öðrum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .