Hlutur Lindarhvols ehf. í Klakka ehf. var metinn á 989 milljónir króna í maí 2016. Þetta má lesa úr verðmati Deloitte á félaginu sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Þegar umræddur hlutur var seldur af félaginu tæpu hálfu ári síðar var söluverðið 505 milljónir króna.

Reglulega hefur verið fjallað um Lindarhvol og störf félagsins á síðum Viðskiptablaðsins en félaginu var komið á fót árið 2016. Hlutverk þess var að annast umsýslu, fullnustu og sölu tiltekinna verðmæta sem Seðlabankinn tók við í formi stöðugleikaframsalseigna slitabúa föllnu bankanna. Markmið félagsins var að hámarka verðmæti eignanna og lágmarka eins og unnt er kostnað við umsýslu þeirra. Í orði var mikil áhersla var lögð á „gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni“ í starfsemi félagsins.

Meðal eigna sem Lindarhvoll kom í verð var tæplega 18% hlutur í Klakka ehf., áður Exista, auk nauðasamningskröfu að nafnvirði rúmlega 36 milljarða króna. Kröfur á félagið voru í sex flokkum, A til F, en hlutaféð í einum flokki. Tiltekinn hluti nafnverðs hlutafjár fylgdi hverri kröfu og var ekki hægt að selja kröfur á það án þess að selja samvarandi nafnverð hlutafjár. Einn flokkur, það er flokkur C, átti forgang á 75% greiðslna sem bárust frá dótturfélaginu Lýsingu hf., nú Lykli hf., en afgangurinn skiptist jafnt á flokka.

Ekkert lágmarksverð

Í lok september 2016 auglýsti Lindarhvoll til sölu eignarhlut sinn í Klakka, það er hlutafé að nafnvirði fimm milljarðar króna, auk nauðasamningskröfu á hendur félaginu. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi félagsins var ekkert lágmarksverð sett á eignina annað en „virði eignarinnar við framsal, samkvæmt viðkomandi stöðugleikasamning, að teknu tilliti til greiðsluflæðis af eigninni“. Samkvæmt því var lágmarksverðið 308,2 milljónir króna að því er segir í skýrslunni. Í skýrslunni er þess aftur á móti ekki getið að í maí 2016 fékk stjórn Klakka ráðgjafarfyrirtækið Deloitte til að vinna verðmat á því. Ástæðan var sú að kröfuhafar Klakka hugðust taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands.

Matið lá fyrir í byrjun júní sama ár. Samkvæmt því var virði félagsins 12.323 milljónir króna. Verðmatinu fylgdi einnig sundurliðun á virði félagsins niður á fyrrgreinda A-F flokka. Samkvæmt því var verðmæti hlutar Lindarhvols, sem var í svokölluðum F-flokki, rétt tæplega milljarður króna í maí 2016 eða tæplega tvöfalt meira en fékkst fyrir kröfuna og hlutinn í útboði Lindarhvols. Rétt er að geta þess að í millitíðinni hafði Lindarhvoll fengið greitt upp í kröfu sína, meðan félagið var enn eigandi hennar, á annað hundrað milljóna króna.

Kaupandi kröfunnar var BLM fjárfestingar ehf. en innan við ári eftir að skrifað var undir kaupsamning hafði félagið fengið tæplega 330 milljónir króna upp í kröfuna sem það keypti af ríkinu. Ári síðar höfðu 430 milljónir króna verið greiddar upp í kröfuna. Við bættust síðan fjármunir sem fengust þegar TM keypti alla hluti í Lykli. Alls má því áætla að kaupendur hafi fengið rétt ríflega tvöfalt upphaflegt kaupverð fyrir kröfuna þegar allt er talið saman.

Sem kunnugt er útvistaði Lindarhvoll stórum hluta verkefna sinna til lögmannsins Steinars Þórs Guðgeirssonar og stofu hans Íslaga. Var það gert á grunni samnings milli aðila. Rétt er að geta þess að á þeim tíma sem verðmatsins var óskað var téður Steinar Þór í stjórn Klakka og því ekki óvarlegt að áætla að hann hafi vitað af verðmatinu. Þá kom lögmaðurinn að sölunni á Klakka og mælti með því við stjórn Lindarhvols að tilboði BLM yrði tekið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .