Samkvæmt nýrri skýrslu frá Matvælaeftirliti Sameinuðu Þjóðanna lækkaði verð á matvörum um 5,2 prósent á heimsmarkaði í síðasta mánuði. Þetta er mesta verðhrunið í sjö ár, en allar vörur lækkuðu í verði.

Matvælaframleiðendur finna fyrir minnkandi eftirspurn frá Kína sem og viðskiptabanni Rússlands á vestrænan varning. Ætlar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að styrkja bændur í heimsálfunni um 500 milljónir evra, en stærstur hluti styrkjanna mun renna til mjólkuriðnaðarins í Evrópusambandslöndum.

Mjólkurbændur hafa þurft að sætta sig við 20 prósenta lækkun á heildsöluverði á undanförnu ári, en bændur hafa mótmælt lækkandi verði undanfarnar vikur og segja verðlækkanirnar vera að eyðileggja lífsgrundvöll þeirra.

Á mánudag þurfti lögregla í Belgíu að skjóta táragasi á 7.000 evrópska bændur sem mótmæltu í Brussel og í síðustu viku lokuðu franskir bændur strætum Parísar með 1.500 dráttarvélum.

Ólíklegt er að matvælaverð muni byrja að hækka á ný á næstunni vegna þess að framboð er meira en eftirspurn, auk þess sem lækkandi orkuverð og áhyggjur af ástandi kínverska efnahagsins hafa neikvæð áhrif á verð.