Matvælaverð í heiminum mun haldast hátt næstu misserin með tilheyrandi verðbólguáhrifum í mörgum löndum, að mati Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO).

Verðvísitala matvælaverðs í heiminum var 232 í maí sl. sem er aðeins fimm punktum fyrir neðan sögulegt hámark frá því í febrúar, 237.

Hátt verð á matvöru, og raunar á svo til allri hrávöru, í heiminum undanfarna mánuði hefur skapað mikil vandamál víða vegna verðbólguáhrifa. Það á ekki síst við um Mið-Austurlönd, Afríku og Evrópuríki einnig.

Samkvæmt frásögn breska ríkisútvarpsins BBC í dag er verð á algengri matvöru, svo sem sykri, hveit og kjöti, nú að meðaltali um 37% hærra en það var fyrir ári síðan.