Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir fyrirtækið ætla að fjárfesta í sjálfvirkum vélum, fjarstýringarbúnaði og annarri tækni á næstu árum auk þess að ráðast í frekari yfirtökur.

Hvernig eru horfurnar á kjöt-, kjúklinga- og fiskmörkuðum og matvælamörkuðum almennt?

„Heimurinn er að breytast mjög hratt. Virkum neytendum hefur fjölgað úr einum milljarði í tvo milljarða á síðustu 20 árum og fjöldi þeirra mun fara í fimm milljarða næstu 20 árin. Neysla á mann á nýmörkuðum á eftir að aukast og nálgast neysluna í Evrópu og Bandaríkjunum sem mun ekki fara hærra. Eldisfiskur ásamt svína- og kjúklingakjöti mun að mestu leyti uppfylla þarfir og langanir ásamt kaupgetu millistéttarinnar eftir auknum fiski, kjöti og kjúklingi.

Við teljum Marel vera í hringamiðju þessarar þróunar í matvælaiðnaði á heimsvísu. Þarna eru tækifæri fyrir okkur að hámarka gæðin, nýtingu og sjálfbærni sem allt eru gríðarlega mikilvægir þættir fyrir matvælavinnslu framtíðarinnar þar sem auka þarf bæði magn og gæði.“

Hvernig mun tæknivæðing matvælavinnslu þróast á næstu árum?

„Næstu tíu ár verður mikil áhersla lögð á fjarstýringu og Internet hlutanna (e. Internet of things ). Það þýðir að hægt verður að fylgjast með og stýra vinnslunni með upplýsingatækni og að vélarnar tali saman og læri hver af annarri. Það verður stóra byltingin í matvælaiðnaði eins og annars staðar. Framtíðin er sjálfvirknivæðing á öllum ferlum og minni áhersla á mannskap til að tryggja rekjanleika, uppitíma og fleira. Marel mun í auknum mæli verða hugbúnaðarhús. Við erum þegar byrjuð í þessari þróun, með FleXicut sem er sjálfvirk vél sem úrbeinar og hámarkar virði á bolfisk með sjóntækni og vatnsskurði. Tölvur og gervigreind munu greina gögn. Við munum fjárfesta í þessu. Áherslan síðustu tuttugu árin hefur verið á að ná fram hagræði í verksmiðjunum. Áherslan næstu tuttugu árin verður á hagræðingu á skrifstofunni.“

Hvaða áhrif mun það hafa á matvælagæði og arðsemi í matvælavinnslu?

„Þessi þróun mun leiða af sér mikla virðisaukningu. Með því að fjarlægja mannleg mistök aukast gæði vörunnar. Matvælaframleiðsla færist nær því að vera nákvæmlega það sem markaðurinn sækist eftir. Það lágmarkar einnig sóun í virðiskeðjunni og nær að hámarka nýtingu matvæla. Það verður meiri hraði í nýsköpun heldur en nokkru sinni fyrr og meira verður gert í samstarfi milli aðila sem starfa í ólíkum iðngreinum. Þetta mun leiða til meiri gæða í matvælum og þá ekki síst í skyndibitum.“

Hvaða verkefni eru í gangi hjá Marel og hvað er fram undan?

„Við höfum verið að fjárfesta í innviðum, húsnæði, tölvukerfum, starfsfólki og betri ferlum sem gerir okkur betri í að takast á við verkefni framtíðarinnar. Verkefnin eru skýr og hafa sjaldan verið skýrari. Stærstu verkefnin eru að halda áfram að bæta þjónustu okkar og fjárfesta í nýrri tölvutækni og tryggja samkeppnisforskot okkar þar. Við viljum bæta þær vörur sem við framleiðum og gera betur en samkeppnisaðilar. Við ætlum svo að takast á við frekari yfirtökur til að ná fram enn meiri stærðarhagkvæmni.

Það er mikil umpólun að eiga sér stað í neysluþróun og á matvælamörkuðum á heimsvísu, og þá er eins gott að hafa þekkingu, stærð og styrk til þess að grípa tækifærið. Við munum áfram ná innri vexti en gerum ráð fyrir að fjármagna ytri vöxt að töluverðu leyti með sjóðstreymi, en með því að vaxa getum við jafnað út sveiflur milli ýmiss iðnaðar og hagsvæða.“

Nánar er rætt við Árna Odd Þórðarson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .