Vörukarfa ASÍ hækkaði um 9% - 28% í helstu verslunarkeðjum frá miðjum apríl til októberloka.

Mestar hækkanir á verð vörukörfunnar voru í lágvöruverðsverslunum.

Þetta kemur fram í nýrri verðkönnun ASÍ.

Þar kemur fram að í Kaskó hefur karfan hækkað um tæp 28% sl. hálft ár, í Bónus nemur hækkunin ríflega 25% og í Nettó 21%.

Af lágvöruverðsverslunum hefur vörukarfan hækkað minnst í Krónunni um tæplega 15%.

Nóatún hækkar mest af stórmörkuðum

Í tilkynningu frá ASÍ kemur fram að í öðrum verslunum hefur vörukarfa ASÍ hækkað mest í klukkubúðunum 11-11 og Samkaup-Strax og í stórmarkaðinum Samkaup-Úrval, um 18%-19% frá því í apríl.

Í Nóatúni nemur hækkun körfunnar 13% á tímabilinu og í 10-11 hefur vörukarfan hækkað um rúm 11%. Minnst hækkun hefur orðið á vörukörfu ASÍ sl. hálft ár í Hagkaupum, tæplega 9%.

Um verðkönnun ASÍ

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara.

Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðalheimilis. Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirfarandi verslanakeðjum: Í lágvöruverðsverslunum Bónus, Krónunni, Nettó og Kaskó og í almennu matvöruverslununum Hagkaupum, Nóatúni og Samkaupum-Úrval og Klukkubúðunum 10-11, 11-11 og Samkaupum-Strax.