„Yfirleitt fara verðhækkanir frá framleiðendum og birgjum út í verðlagið. Það er ljóst að matvöruverslun getur ekki bæði tekið á sig hækkun á launakostnaði og hækkun á kostnaðarverði. Við munum reyna að hagræða í rekstrinum og gera allt sem við getum til að halda í verðstöðugleikann,“ segir Jón Björnsson, forstjóri Kaupáss, í samtali við Morgunblaðið , en fyrirtækið á og rekur meðal annars Krónuverslanirnar hér á landi.

Í Morgunblaðinu kemur fram að nýgerðir kjarasamningar séu þegar farnir að valda þrýstingi til verðhækkana á mat. Þannig hafi verslunum Krónunnar borist fjöldi tilkynninga um hækkanir frá heildsölum og birgjum sem nemi 2-10%.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir í samtali við Morgunblaðið að ekki sé útséð með hvaða áhrif kjarasamningar og verðhækkanir frá birgjum og heildsölum muni hafa á rekstur félagsins í ár. „Það er ljóst að í síðustu viku byrjuðu að berast verðhækkanir til okkar. Við munum reyna að sporna við þeim eins og við getum.“