Vegna viðskiptabanns gagnvart vestrænum ríkjum hefur matvöruverð í Rússlandi farið hækkandi að undanförnu. Þessu greinir BBC frá.

Síðan að bannið var sett á 7. ágúst hefur verð á svínakjöti hækkað um 6% í Moskvu. Í Sankti Pétursborg hefur matvöruverð hækkað um 10%, þó er vert að athuga að verð hækkaði einnig fyrir bannið.

Aðal hagfræðingur ríkisstjórnar Sankti Pétursborgar, Anatoly Kotov, segir að verð á svínakjöti hafi hækkað um 23,5% og á kjúklingakjöti um 25,8%.

Á mánudaginn sagði forsætisráðherra Rússlands, Dmitry Medvedev, að hann ætti ekki von á því að viðskiptabannið myndi leiða til hækkunar verðlags né skorts á matvöru. Hann sagði einnig að hann vonaðist til að bannið, sem er til eins árs, muni ekki vara lengi.

Matvöruverð hefur hækkað meira í austurhluta Rússlands en í vestur borgunum. Áætlað er að ostur hafi hækkað um 10% þar og kjöt um 15% auk þess hækkuðu kjúklingalæri um 60%.