Jón Björnsson, forstjóri hjá Festi sem á og rekur matvöruverslanir Krónuna, Nóatún og Kjarval, segir að verði af allsherjarverkfalli þann 6. júní næstkomandi verði fyrirtækið ekki starfhæft með þrjátíu verslanir. Hins vegar verði hugsanlega hægt að hafa einhverjar verslanir opnar.

Landssamband íslenskra verslunarmanna, Flóabandalagið og Starfsgreinasambandið hafa boðað til allsherjarverkfalls þann 6. júní næstkomandi. Samtals munu um 70 þúsund félagsmenn þessara stéttarfélaga leggja niður störf.

„Við verðum eðlilega ekki starfhæf með þrjátíu verslanir. Það er samt spurning hvort hægt sé að hafa einhverjar verslanir opnar en þá þurfa að vera einhverjar vörur í búðunum. Hins vegar er of snemmt að segja til um þetta eins og staðan er í dag,“ segir Jón í samtali við Viðskiptablaðið.

Jón segir að það sé að sjálfsögðu vilji til að reyna að hafa eins margar verslanir opnar og hægt sé. „En ef að engin ferskvara er í búðunum og engin skip eru losuð gengur ansi hratt á vörurnar. Við fáum inn ávexti vikulega og kjötvörur daglega og ef það kemur ekki inn er voðalega fátt eftir nema fyrstivara og þurrvara. Við munum hins vegar hafa eins mikið opið og hægt er ef því verður viðkomið.“