*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 3. júlí 2009 09:30

,,Maður hefur trú á því sem maður er að gera"

Íslensk náttúra í eldstæði - Heimurinn er markaðssvæðið

Gísli Freyr Valdórsson

Það var fyrir um einu og hálfu ári sem tvær ungar athafnakonur, þær Linda Svanbergsdóttir, viðskipta- og alþjóðamarkaðsfræðingur, og Valgerður Einarsdóttir hönnuður, stofnuðu hönnunarfyrirtækið Secret North en fyrirtækið sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á etanól-eldstæðum og húsgögnum með eldi í. 

Linda segir að fyrirtækið hafi náð góðum árangri á stuttum tíma en þær stefna að því að vera komnar með vörur sínar í 7-10 verslanir nú á haustmánuðum. Aðspurðar hvernig það hafi verið að stofna nýtt fyrirtæki með útflutningsstarfsemi í huga segja þær að það hafi vissulega ekki verið auðvelt.

„Við höfum þó farið skynsamlega af stað, tekið lítil en góð skref og réttar ákvarðanir,“ segir Linda.

„Við höfum því getað hagað seglum eftir vindi og vandað okkur. Ef við hefðum farið af stað með meiri hraða hefðum við líklega ekki náð að vanda okkur eins og við höfum gert. En okkur hefur tekist að byggja góðan grunn.“

Linda bætir við að í raun hafi þær fjármagnað sig sjálfar hingað til.

„Þolinmæði okkar byggist á því að við höfum fullkomna trú á því sem við erum að gera. Við höfum fengið góð viðbrögð og erum jákvæðar á framhaldið. Það gefur manni mikið og segir svo margt. Auðvitað erum við að taka mikla áhættu en maður myndi ekki gera það nema af því að maður hefur trú á því sem maður er að gera og sér fram á aukin verkefni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu.