Boris Jeltsín, fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Rússlands gekk fyrir ætternisstapa í gær, sjötíu og sex ára að aldri. Þar með lauk viðburðarríkri ævi manns sem var örlagavaldur í sögu þjóðar sinnar og verður bæði minnst fyrir hugrekki og afleita stjórnarhætti.

Táknmynd síðasta andvarps Sovétkommúnismans verður að teljast þegar Jeltsín steig upp á skriðdreka fyrir framan rússneska þingið þann 19. ágúst 1991 eftir valdránstilraun harðlínumanna. Framganga hans þann dag tók af öll tvímæli um hvaða örlög biðu Sovétríkjanna. Hann gerði lýðnum ljóst að líf þeirra yrði ekki framlengt. Í fyrstu með því að standa uppi í hárinu á steinrunnum harðlínumönnum sovéska kommúnistaflokksins og í framhaldinu með því að gera Mikhaíl Gorbatsjov ljóst að erindi hans í stjórnmálum væri lokið. Í kjölfarið leiddi Jeltsín að mestu friðsæla upplausn Sovétríkjanna og leiddi til lykta viðkvæm en gríðarlega mikilvæg mál eins og undir forræði hvers kjarnorkuvopnabúr hins fallna heimsveldis ætti að vera. Það var á þessum tíma sem frægðarsól Jeltsíns skein sem hæst. En frá og með þeim tíma tók hún að hníga til viðar.

Forsetatíð Jeltsíns, sem stóð frá 1991 til 1999, var róstusamur tími í sögu Rússlands.Markaðsvæðing hagkerfisins reyndist sársaukafull og efnahagsumbætur Jeltsíns gáfu ekki góða raun til skemmri tíma litið. Um mitt ár 1993 er talið að á bilinu 40 til 50% Rússa hafi verið undir fátæktarmörkum. Einkavæðingaráform stjórnvalda hafa löngum þótt vera ámælisverð en í tíð Jeltsíns söfnuðust hin miklu auðævi Rússlands á hendur örfárra manna, sem borguðu lítið sem ekkert fyrir. Sérfræðingar um málefni Rússlands hafa lýst ástandinu á þann veg að á þessum tíma hafi Rússland verið "þjófaríki". Skattheimta var í molum og ríkisvaldið stóð á veikum grunni. Á miðjum tíunda áratugnum ríkti glundroði í Rússlandi. Á meðan hersveitir reyndu að berja niður uppreisn í Tsjetseníu tókust glæpagengi á um völdin í helstu borgum landsins. Lög, regla og réttarríki, forsendur markaðsskipulag, voru fjarri Rússum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.