Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair fagnar afléttingu kyrrsetningar Boeing 737 Max vélanna og segist hann gera ráð fyrir að nota vélar félagsins af þessari gerð næsta sumar að því er Fréttablaðið greinir frá.

Bogi segir jafnframt að þá verði stefnt að því að fljúga á 34 áfangastaði, en þá er gert ráð fyrir að eftirspurn taki verulega við sér og landamæri opni, en þó sé þetta um 25 til 30% minni flugáætlun en var árið 2019.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hafa bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) heimilað að vélar af þessari gerð fljúgi á ný, en síðan þarf hvert fyrirtæki fyrir sig að fara í gegnum þjálfun og vottun á vélum sínum. Vélarnar voru kyrrsettar snemma árs 2019 eftir tvö mannskæð flugslys þar sem sjálfstýribúnaður tók völdin af flugmönnum.

„Við hugsum þetta sem framtíðarvélar í okkar flota og okkar leiðakerfi. Við vorum með þessar vélar í rekstri í ákveðinn tíma áður en þær voru kyrrsettar og þær nýttust okkur mjög vel,“ segir Bogi.

„Við erum búin að fá afhentar sex vélar og vorum með tíu vélar til viðbótar í pöntun en í sumar skrifuðum við undir samkomulag þar sem við fækkuðum vélum í pöntun, þannig við fáum samtals tólf.“

Jafnframt er talið að önnur flugmálayfirvöld sem mörg hver hafa verið í samstarfi við FAA í Bandaríkjunum muni heimila flug vélanna á ný á næstunni. Bogi býst við sams konar ákvörðun evrópskra flugmálayfirvalda í janúar að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Það hef­ur verið talað um að Evr­ópska flug­mála­eft­ir­litið muni gefa sér tvo mánuði til að fara yfir niður­stöðurn­ar hjá því banda­ríska og þá er senni­legt að flug­hæfni vél­ar­inn­ar verði staðfest fyr­ir Evr­ópu í janú­ar næst­kom­andi,“ segir Bogi.

„Við ger­um hins veg­ar ekki ráð fyr­ir að taka vél­arn­ar okk­ar inn í áætl­un fyrr en nokkru eft­ir það. Miðað við um­svif­in sem við ger­um ráð fyr­ir næstu mánuðina erum við með nógu marg­ar vél­ar til að anna flugáætl­un­inni.“