Mögulegt er að biðin eftir MAX þotunum geti dregist fram til áramóta. Frá þessu er greint á vef Túrista .

„Icelandair gerði í sumarbyrjun breytingar á flugáætlun sinni fram í miðjan september vegna kyrrsetningar á Boeing MAX-þotum sem sett var á um miðjan mars eftir tvö mannskæð flugslys. Vonir hafa verið bundnar við að flugvélar af þessari gerð fái fljótt að taka á loft á ný en eftir að mögulegur nýr galli uppgötvaðist í stýrikerfi flugvélanna í síðustu viku þá hefur útlitið versnað til muna. Nú er fyrst gert ráð fyrir að sérfræðingar Boeing ljúki við breytingar á hugbúnaði vélanna í september. Fyrst þá munu flugmálayfirvöld í hverju landi fyrir sig geta hafið sitt vottunarferli og þar með gæti það dregist fram til áramóta að aflétta kyrrsetningu þotanna," segir í frétt á vef túrista.

„Stjórnendur flugfélaga eru því farnir að gera ráðstafanir og fyrir helgi tilkynnti Southwest flugfélagið að áætlun félagsins yrði breytt fram í október til að koma í veg fyrir óþægindi hjá farþegum ef aflýsa þyrfti mörgum flugferðum vegna skorts á farþegaþotum. Hjá Turkish Airlines var skrefið ennþá stærra því þar á bæ er ekki reiknað með neinum Boeing MAX þotum í vetraráætlun félagsins."

Hvort fleiri flugfélög bregðist við með svipuðum hætti kemur væntanlega í ljós á næstu dögum. Núverandi sumaráætlun Icelandair gerði ráð fyrir að félagið hefði níu MAX þotur til ráðstöfunnar og leigði félagið fjórar þotur til að brúa bilið.