Bandaríska flugmálaeftirlitið (FAA) hefur heimilað Boeing 737 MAX vélunum að fljúga á ný, 20 mánuðum eftir að flugvélarnar voru kyrrsettar í kjölfar tveggja stórslysa þar sem sjálfstýring vélarinnar tók stjórn af flugmönnum vélanna. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun október þegar Icelandair seldi þrjár eldri véla sinna mun félagið eignast alls 12 vélar af MAX gerðinni.

Þó gætu liðið mánuðir þangað til MAX vélarnar fljúgi með farþega á ný, því FAA þarf að samþykkja þjálfunaráætlanir hvers bandarísks flugfélags sem notast við vélar af þessari tegund, sem og yfirfara þarf vélarnar. Auk þess hefur kórónuveirufaraldurinn dregið mikið úr eftirspurn eftir flugi.

Boeing hefur tapað milljörðum Bandaríkjadala á kyrrsetningunni en félagið hélt áfram að framleiða vélarnar fram á síðustu áramót. Þannig hefur félagið tapað um 1.000 pöntunum á árinu, aðallega eftir MAX vélum, en samt sem áður á félagið eftir að uppfylla um 4.200 pantanir eftir flugvélum, aðallega af gerðinni 737 MAX.

Segist treysta vélunum 100% fyrir fjölskyldu sinni

Stephen Dickson yfirmaður flugmálaeftirlitsins, FAA, hefur núþegar skrifað undir formlega afléttingu kyrrsetningarinnar.

„Leiðin hingað hefur verið löng og erfið, en við sögðum frá byrjun að við myndum taka þann tíma sem þyrfti til að gera þetta rétt,“ hefur New York Times eftir myndbandsskilaboðum frá honum. „Ég er sjálfur 100% öruggur með að fjölskylda mín ferðist með vélunum.“

Boeing 737 MAX vélarnar voru kyrrsettar í mars á síðasta ári þegar bandarísk flugmálayfirvöld tóku undir með flugmálayfirvöldum í öðrum löndum sem höfðu bannað flug vélanna til þeirra eftir að flugslys véla af þessari gerð höfðu banað 346 manns í Indónesíu og Eþíópíu.

Þó rannsakendur segi að rekja megi vandann til fjölda atriða, þar á meðal verkfræðilegra mistaka og skorts á eftirliti yfirvalda, þá er rót slysanna rakinn til MCAS hugbúnaðarins sem er hluti af sjálfstýringu vélanna.

Átti hann að beina nefi vélarinnar niður í ákveðnum tilfellum ef hætta væri á ofrisi vélarinnar sem vegna hönnunar sem á að spara eldsneyti hættir frekar til þess en aðrar vélar að leita upp á við í flugi.

Þannig átti MCAS búnaðurinn að vega á móti stærð og staðsetningu hreyfla MAX vélanna sem hönnuð var með það fyrir augum að ekki þyrfti að fara í gegnum kostnaðarsama viðbótarþjálfun flugmanna.

Yfirmaður FAA prófaði sjálfur að fljúga MAX vél

Bandaríska flugmálaeftirlitið mat það svo í ágúst síðastliðnum að tillögur til úrbóta frá Boeing sem fela í sér aukna þjálfun flugmanna auk breytinga á hönnun vélanna komi nægilega vel til móts við öryggisþarfir. Dickson sjálfur sem var áður flugmaður hjá Delta Air Lines tók þátt í tilraunaflugi í september og var sáttur við útkomuna.

Nú þegar bandaríska flugmálaeftirlitið hefur gefið grænt ljós á flug vélanna er búist við að flugmálayfirvöld annarra ríkja fylgi í kjölfarið, en mikið samstarf hefur verið yfirvöld í Kanada, ESB og Brasilíu um nýjar reglur um þjálfun flugmanna í MAX vélunum.

Vegna ástandsins í eftirspurn eftir flugi og vegna tafa við þjálfun og yfirferð véla af MAX gerðinni sagði Doug Parker forstjóri American Arlaines í síðasta mánuði að vélar félagsins af þessari gerð muni í fyrsta lagi fara á loft í desember ef heimildin fæst í nóvember. Bæði Southwest Airlines og United Airlines búast ekki við að vélar þeirra af MAX gerðinni fari ekki á loft fyrr en á næsta ári.