Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, reynir að róa fyrirtæki sem starfa á Bretlandseyjum vegna úrsagnar landsins úr Evrópusambandinu. Frá þessu er greint í frétt BBC .

Á fundi sem haldinn var í dag þá lofaði Theresa May því að samkomulag gæti náðst um framtíð þeirra sem Evrópubúa sem störfuðu í Bretlandi og þeirra Breta sem störfuðu í Evrópu.

„Fólk vill ekki ganga fram af klettabrún, fólk vill að það sé ákveðinn stöðugleiki um það hvernig málum er háttað,“ er haft eftir forsetaráðherranum. Hagsmunahópar fyrirtækja hafa kallað eftir því að það verði fundin skammtímalausn á því hvernig málum verði hagað.

May sagði jafnframt að hún hefði samúð með þeim sem stæðu í viðskiptum á þessum óvissutímum og að hún þurfi að leggja sig fram til þess að skoða vandamálin gaumgæfilega. Pundið styrktist um 1% á einni mínútu í kjölfar ræðu May, en hún virðist hafa haft einhver jákvæð áhrif.