Bretar hefja formlega útgönguferli úr Evrópusambandinu í dag, nokkrum dögum eftir 60 ára afmæli Evrópusambandsins og eru þar með fyrsta sjálfstæða ríkið til þess að ganga úr ESB.

Níu mánuðir eru síðan breskir kjósendur kusu um að yfirgefa Evrópusambandið. Theresa May, forsætisráðherra Breta hefur þegar skrifað undir bréf þar sem kemur fram að Bretar áætla að virkja 50. grein Lissabon sáttmálans sem kveður á um, útgöngu Breta úr sambandinu.

Bréfið verður í kjölfarið flogið til Donald Tusk, forseta ráðherraráðs Evrópusambandsins, og í frétt AFP fréttaveitunnar um málið segir að Tusk og May hafi rætt símleiðis um útgöngu Breta í morgun. Í bréfi forsætisráðherrans til þingsins kemur fram að nú sé stundin fyrir Breta að sameinast.

Bréfið verður fært Donald Tusk um hádegisbil í Brussel af Sir Tim Barrow, sendiherra Breta til Evrópusambandsins, en hann er þegar mættur til Brussel.