*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 8. mars 2014 21:26

MBA- íþróttafræðingur hjá Deloitte

Margrét Sanders tekur við af nöfnu sinni sem formaður Samtaka verslunar og þjónustu síðar í mánuðinum.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Margrét Sanders.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Ég kem úr þjónustugeiranum og sú rödd kemur örugglega eitthvað sterkari inn,“ segir Margrét Sanders, framkvæmdastjóri hjá Deloitte. Hún var ein í framboði til formanns Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ). Búið er að loka fyrir framboð og er Margrét því sjálfkjörin. Hún tekur við af Margréti Kristmannsdóttur, sem verður að stíga úr stjórninni vegna fimm ára hámarksetu í henni. Sama máli gegnir um þau Finn Árnason, forstjóra Haga, Guðmund Halldór Jónsson hjá Norvík og Sigríði Margréti Oddsdóttur, forstjóra Já, en fimm ára reglan nær jafnframt til þeirra. Margrét tekur við af nöfnu sinni 20. mars næstkomandi.

Margrét er að vestan, fædd á Ísafirði. Hún ólst hins vegar upp í Reykjanesbæ, nánar tiltekið í Njarðvík og býr þar enn. Menntun hennar er fjölbreytt og einkenndist í fyrstu af brennandi áhuga á íþróttum. Eftir að hún lauk stúdentsprófi fór hún til Frakklands til að búa sig undir háskólanám. Þaðan fór hún í Íþróttakennaraskóla Íslands. Leiðin lá þaðan í Kennaraháskólann, síðan í viðskiptafræðina og þaðan að lokum í MBA-nám í Bandaríkjunum. Þar vann hún við ráðgjöf í tengslum við námið og kenndi í nokkur ár.

Síðastliðin fimmtán ár hefur Margrét svo verið framkvæmdastjóri hjá Deloitte. Spurð út í ástæðu þess að hún fetaði þennan menntaveg frekar en annan svarar Margrét að hún hafi komið víða við. „Áhuginn hefur breyst með árunum og hef ég verið óhrædd við að taka nýjar áskoranir,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.