„Þetta er fyrsta skiptið í 12 ár sem mbl.is er ekki með. En þeir eru ekki hættir í vefmælingu,“ segir Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri Modernus, sem heldur utan um samræmda vefmælingu á netmiðlum hér á landi og í Færeyjum. Fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is, er ekki á nýjasta lista Modernus yfir vefmælingu síðustu viku. Þetta er fyrsta skiptið frá upphafi mælingar sem slíkt hefur gerst. Mælingar hófust 1. maí árið 2001. Mbl.is hefur vermt toppsæti árslista samræmdrar vefmælingar öll árin sem hann hefur verið birtur ef frá eru skilin árin 2007 til 2009 þegar tölvuleikurinn Eve Online náði því. Leikurinn er ekki lengur mældur.

Jens bendir á að ástæða þess að mbl.is er ekki með í mælingunni nú er sú að fulltrúi Árvakurs í samráðsnefnd Modernus var mótfallinn að birta lista yfir meðaltal daglegra notenda samhliða vikulegum heimsóknum og öðrum upplýsingum sem þar birtast. Samráðsnefndin samanstendur af fulltrúum þeirra sem sitja í 10 efstu sætunum á lista Modernusar. Á fundinum sem haldinn var snemma í desember átti fulltrúi netmiðilsins Vísir.is frumkvæðið að því að listi yfir daglega notendur yrði birtur. Fulltrúar sex annarra miðla studdu tillögu Vísis.is en þrír voru á móti. Þar á meðal var mbl.is.

Jens undrast ákvörðun mbl.is, ekki síst fyrir þær sakir að hinir tveir sem voru upphaflega á móti mælingu og birtingu upplýsinga um daglega notendur hafi snúist í afstöðu sinni. Hann áréttar að þótt mbl.is sé ekki á lista Modernusar yfir samræmda vefmælingu nú þá þýði það ekki að mbl.is sé hætti í mælingu. Þvert á móti, mbl.is ætli að birta tölurnar á vef sínum.