Það er engin niðursveifla í rekstri McDonald´s, þrátt fyrir að bandarískir neytendur hafi fækkað veitingastaðaferðum sínum. Skyndibitakeðjan hefur kynnt nýja kjúklingasamloku á matseðlinum og býður upp á ódýra drykki, sem hefur reynst vel.

Hagnaður McDonald´s á þriðja ársfjórðungi nam 1,2 milljörðum Bandaríkjadala, en var 1,1 milljarðar á sama tíma í fyrra. Hagnaðurinn nú var 1,05 dalir á hlut en meðalspá greiningaraðila gerði ráð fyrir 0,98 dölum á hlut.

Forstjóri McDonald´s, Jim Skinner, segist bjartsýnn á að afkoma keðjunnar verði góð út þetta ár. Hann segir McDonald´s ónæmt fyrir samdrætti (e. recession resistant).

Sala McDonald´s í Bandaríkjunum jókst um 4,7% á ársfjórðungnum.

Reuters greindi frá.