Skyndibitakeðjan McDonald's ætlar að halda svokallaðan ráðningadag þann 19. apríl næstkomandi í Bandaríkjunum. Stendur til að ráða allt að 50 þúsund nýja starfsmenn á ráðningadeginum.

AP fréttastofa greinir frá áformum félagsins en forsvarsmenn McDonald's segja að aukin viðskipti og lengri opnunartími kalli á fleira starfsfólk. Um 3 til 4 nýir starfsmenn verða ráðnir á hverjum stað.

McDonald's, sem er önnur stærsta skyndibitakeðja heims á eftir Subway, hélt svipaðan dag í fyrra. Hann var þó eingöngu haldinn á Vesturströnd Bandaríkjanna og sóttu 60 þúsund manns um 13.000 störf.