McDonald‘s stefnir á að loka varanlega 200 matsölustöðum í Bandaríkjunum í ár en meirihluti þeirra eru staðsettir inni í Walmart verslunum, að því er segir í frétt Fox .

Ákvörðuninni var lýst sem „hröðun lokana“ sem voru þegar áætlaðar á næstu árum, samkvæmt skjölum sem fyrirtækið skilaði til eftirlitsaðila. Þrátt fyrir lokanirnar býst fyrirtækið við að matsölustöðum keðjunnar fjölgi um 350 á árinu.

Skyndibitarisinn birti árshlutauppgjör í dag sem þar sem fram kom að sala og tekjur fyrirtækisins hafi fallið um tæp 30% samanborið við sama tímabil í fyrra. Tekjur félagsins drógust saman um 18% á fyrri helmingi ársins.

Fyrirtækið nefndi heimsfaraldurinn sem aðalástæðuna á bak við samdráttinn en Crhis Kempczinski forstjórinn sagði að fyrirtækið hefði þó lært að aðlaga reksturinn að nýju umhverfi. Hann nefndi sérstaklega mikilvægi bílalúga og fjárfestinga í heimsendingum og stafrænni þjónustu.

Af þeim 39 þúsund matsölustöðum sem McDonald‘s rekur víðs vegar um heim eru 96% opnir í dag en einungis 75% voru opnir í byrjun aprílmánaðar.