Skyndibitafyrirtækið McDonalds ætlar sér að opna tuttugu nýja veitingastaði í Rússlandi. Fyrirtækið lenti fyrir ári síðan í miklum vandræðum vegna deilna Rússa við Bandaríkin og Evrópusambandið en það hefur haft þó nokkur áhrif á afkomu McDonalds sem hefur einnig séð minnkandi sölu vestanhafs síðustu misserin. Nú hefur fyrirtækið gert samning við rússneska fyrirtækið GiD sem mun hjálpa því við að víkka út starfsemi McDonalds alla leiðina til Síberíu.

Á síðasta ári þegar Evrópusambandið og Bandaríkin tilkynntu um viðskiptaþvinganir gegn rússneskum fyrirtækjum þurfti McDonalds að loka 200 af 500 veitingastöðum sínum tímabundið.

Um 40.000 manns starfa hjá McDonalds í Rússlandi og hefur fyrirtækið í kringum milljón viðskiptavini þar á landi. Tæplega fimm prósent af tekjum McDonalds koma frá Rússlandi.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times .