McDonald's hefur á síðustu árum fundið fyrir talsvert minni áhuga meðal alþjóðlegra skyndibitaunnenda. Sölutölur félagsins hafa hrakað og hefur hlutabréfaverðið endurspeglað áhyggjur fjárfesta.

McDonald's íhugar þó að veðja á heimsendingar til þess að snúa rekstrinum aftur á rétta braut, en fáar skyndibitakeðjur eru jafn útbreiddar og McDonald's. Til að mynda búa um 75% af öllum íbúum Bandaríkjanna, Frakklands, Bretlands, Þýskalands og Kanada í nálægð við McDonald's staði.

Þessi mikla útbreiðsla á þá að nýtast félaginu, en stjórnendur McDonald's ætla sér að ná söluvexti sem nemur um 3 til 5 prósentum árlega. Auk þess er stefnan sett á 40% framlegð.

McDonald's hefur áður fiktað með heimsendingar, en svoleiðis þjónustu er til að mynda hægt að nýta sér í miðausturlöndum og víða í Asíu.

Félagið mun einnig auka innleiðingu á tækninýjungum, sem eiga að auka skilvirkni, ýta undir hraða og draga úr starfsmannakostnaði.