McDonald‘s hefur ákveðið að yfirgefa Rússlandsmarkaðinn eftir 30 ára rekstur þar í landi vegna stríðsins í Úkraínu. Skyndibitakeðjan hefur hafið söluferli á öllum veitingastöðum sínum í Rússlandi en fyrirtækið væntir þess að bókfæra 1,2-1,4 milljarða dala kostnað vegna sölunnar.

McDonald‘s tilkynnti í byrjun mars um tímabundna lokun í Rússlandi en hefur nú ákveðið að ganga enn lengra og yfirgefa Rússlandsmarkaðinn að fullu.

Í kauphallartilkynningu sem skyndibitakeðjan sendi frá sér í morgun sagðist hún leita að innlendum kaupanda til að taka yfir veitingastaðina. Jafnframt sækist keðjan eftir að setja skilyrði um tryggð verði atvinna fyrir 62 þúsund starfsmenn hennar í Rússlandi.