Kevin Sneader hefur verið kosinn nýr forstjóri hjá McKinsey á heimsvísu en forstjórinn er kosinn af 560 meðeigendum fyrirtækisins. McKinsey er stærsta ráðgjafafyrirtæki í heiminum en valið á nýjum forstjóra tók fjóra mánuði og mikil samkeppni var um stöðuna.

Sneader tekur við af Dominic Barton, sem gegnt hefur stöðunni undanfarin níu ár. Barton kom hingað til lands í september á síðasta ári og flutti erindi á 100 ára afmæli Viðskiptaráðs í Háskólabíói. Barton hafði gegnt forstjórastöðunni í þrjú kjörtímabil og mátti því ekki gefa kost á sér aftur.

Sneader sem er Breti tekur við góðu búi en á undanförnum tíu árum hafa tekjur McKinsey tvöfaldast og hækkað úr 5 milljörðum dala í 10 milljarða dala. Snaeder sigraði Bob Sternfels í lokaumferð kosninganna en hann verður 12 maðurinn til þess að stýra félaginu síðan það var stofnað árið 1926.