Ísland hefur fallið niður lista efnuðustu landa heims, mælt í landsframleiðslu á mann, og helsta áskorunin nú er að endurheimta vaxtarmöguleika í krefjandi umhverfi. Framleiðni vinnuafls er 20% lægri á Íslandi en í helstu nágrannalöndum og umtalsverð tækifæri eru fyrir hendi til að auka arðsemi í fjármagnsfrekum atvinnugreinum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company sem kynnt var í dag. McKinsey hefur síðastliðna mánuði unnið að gerð ítarlegrar úttektar á hagvaxtarmöguleikum Íslands með viðamikilli gagnaöflun, rýni og viðtölum við fjölmarga aðila m.a. úr atvinnulífi, stjórnsýslu og háskólum.

Úttekt McKinsey er í grófum dráttum þrískipt. Í fyrsta lagi er farið ítarlega yfir helstu áskoranir íslensks efnahagslífs nú. Í öðru lagi eru drifkraftar hagkerfisins skoðaðir og dregið fram hvar helstu þröskuldar í vegi hagvaxtar liggja. Að lokum eru helstu hlutar í hagvaxtaráætlun Íslands dregnir saman ásamt tillögum að því hvernig megi hátta innleiðingu þeirra. Úttektin hefur að geyma margvíslegar gagnlegar og þarfar ábendingar um hvað betur megi fara í ranni atvinnulífs, stjórnsýslu og í hagkerfinu í heild.

Vítahringur sem þarf að losa

Í skýrslunni kemur m.a. fram að hárri landsframleiðslu á mann hér álandi er að verulegu leyti haldið uppi af mikilli atvinnuþátttöku og löngum vinnutíma en þetta óvenju háa framlags vinnuafls skyggir á framleiðnivandamál sem er í flestum greinum atvinnulífsins.

Þá segja skýrsluhöfundar að þrátt fyrir mikla styrkleika í hagkerfinu sé þörf á umbótum á ýmsum sviðum. Skýrsluhöfundar vara m.a. við því að ef fer sem horfir stefni hagkerfið aftur í viðvarandi viðskiptahalla samfara aukinni neyslu á meðan fjárfesting stendur í stað. Þetta myndi leiða til þess að landið festist í vítahring gjaldeyrishafta, hás fjármagnskostnaðar, lágs fjárfestingarstigs og lítils hagvaxtar. Þá kemur fram að til að rjúfa þennan vítahring þurfi að ná fram samstöðu meðal hagsmunaaðila um trúverðuga áætlun um hagvöxt sem byggir á grunnstyrkleikum hagkerfisins og að tekið sé á helstu áskorunum mismunandi greina atvinnulífsins.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir nauðsynlegum aðgerðum til að efla skilvirkni, efla útflutningsgreinar og auka virði útflutnings sem byggir á náttúruauðlindum, t.a.m. með opnun hagkerfisins, bættu aðgengi að áhættufjármagni, úrbótum í menntakerfi, o.fl. – svo að á Íslandi verði viðskiptaumhverfi samkeppnishæft á heimsvísu.