Fyrrum McLaren hönnuður og bílagúrú Gordon Murry hefur hannað nýja borgarbíla sem hann vonast til að valdi byltingu í borgarumferðinni. Einnig vonast hann til að bílarnir sem hann nefnir T.25 og T.27 muni umbylta hugsun í smíði á hefðbundnum bílum. Ganga sérfræðingar jafnvel svo langt að tala um að þarna sé loks fundinn hinn heilagi kaleikur borgarbílahönnunarinnar.

Greint er frá þessu á vefsíðu breska blaðsins Telegraph. Hefur Gordon Murry nýtt sér reynslu sína af hönnun Formúli 1 kappakstursbíla til að gera bílana eins litla um sig og mögulegt er. Þeir eru svo litlir að þrír slíkir bílar geta hæglega lagt í einu venjulegu bílastæði. T.25 vegur aðeins 550 kíló og gengur fyrir 660cc þrígengis Mitsubishi bensínmótor. Reiknar hann með að sá bíll muni kosta 6.000 pund (um 1 milljón krónur) og komi á göturnar eftir tvö til þrjú ár. T.27 sem er rafmagnsbíll mun síðan koma í kjölfarið og á að kosta um 12.000 pund.

Umferðateppan kveikti á perunni

Murry segist hafa orðið fyrir uppljómun árið 2003 þegar hann var á leið til vinnu sinnar í McLaren verksmiðjunni.

„Ég stoppaði í umferðarteppu og allt í kringum mig voru stórir jeppar, S-class Mercedes Benz og BMW. Í þeim öllum var aðeins ein manneskja. Þá byrjaði ég að velta því fyrir mér hvers vegna er ekki hægt að smíða hagkvæma bíla til að binda enda á svona umferðarteppu.”

Útkoman varð iStream

Kappinn dreif sig að teikniborðinu en komst fljótlega að því að bílaiðnaðurinn var engan veginn reiðubúin til að styðja við bakið á byggingu á verksmiðju sem framleiddi ódýra og litla bíla. Ekkert mál væri hins vegar að fá peninga til smíði á stórum og dýrum bílum. Murry hætti því hjá McLaren, fékk fjárfesta í lið með sér til að stofna Gordon Murry Design (GMD). Þar helltu menn sér út í að framkvæma þriggja ára hönnunaráætlun og fékk Murry 28 fyrrum starfsmenn McLaren í lið með sér. Útkoman var iStreem tæknin, þar sem hefðbundinni bílahönnun var snúið á haus. Í stað þess að smíða “boddýið” úr 350 hlutum eins og í hefðbundnum bílum, notuðu þeir tæknina úr smíði Formúlu 1 bíla. Hönnuðu þeir léttbyggða stálgrind sem ekki þurfti nein sérhönnuð verkfæri til að smíða. Utan um það kemur létt en sterk plastskel sem myndar lagið á bílnum.

Minni ódýrari og sterkari

„Með iStream getum við sett upp verksmiðju sem er 80% ódýrari og 80% minni.” Segist hann hafa lagt upp með að smíða bíl sem væri léttari, minni, ódýrari, endingarbetri, öruggari og eyðsluminni en hefðbundnir bílar. Í dag hafa yfir 40 aðilar sýnt áhuga á að fá leyfi til að nýta iStream hugmyndina. Aðeins 8 þeirra eru úr bílaiðnaðinum.