Íslenskt hugvit í formi leikritunar Bjarna Hauks Þórssonar á Pabbanum er gjaldeyrisskapandi útflutningur ekki síður en þorskurinn frá Ólafsvík. Er Pabbinn nú seldur víða um lönd og Afinn bíður frumsýningar og útflutnings á erlendan markað.

Bjarni Haukur Þórsson sló rækilega í gegn þegar hann lék Hellisbúann eftir Rob Becker á fjölunum í Íslensku óperunni (Gamla bíói) á árunum 1998 til 2001. Þá sáu um 100 þúsund manns sýninguna á um 250 sýningum eða meira. Bjarni er nú á öðru ári í MBA námi í Háskólanum í Reykjavík til að öðlast meiri innsýn í rekstur á fyrirtæki sínu, Thorsons Productions

„Sýningin á Hellisbúanum á Íslandi var fyrsta sýningin á verkinu utan Bandaríkjanna. Í kjölfarið var farið í að fá leyfi fyrir sýningunni í fleiri löndum og setja þar upp. Þannig settum við verkið upp á Norðurlöndunum í slagtogi við fleiri aðila og gekk það mjög vel.“

Hellisbúinn var frumsýndur í Kaupmannahöfn 7. október árið 2000 og var sýningin nær alfarið kostuð af Íslendingum. Í kjölfarið voru settar upp sýningar í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Var verkið sett upp í Finnlandi bæði á sænsku og finnsku.

Sló líka í gegn með eigin verki, Pabbanum

Bjarni endurtók þennan leik árið 2007 með uppsetningu á eigin verki, Pabbanum, í Iðnó undir leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar. Þar er fjallað á gamansaman hátt um það hvað er að vera pabbi í nútímasamfélagi. Það er gamansöm hugleiðing um föðurhlutverkið og segir frá upplifunum ungs manns af meðgöngunni, fæðingunni og fyrstu skrefunum. Fékk Bjarni leikhúsgesti til að engjast í hláturskrampa, sýningu eftir sýningu í á annað ár.

Afinn frumsýndur í janúar

„Óumflýjanlegt framhald Pabbans er eðlilega Afinn. Ætlunin er að Afinn komi i kjölfarið á Pabbanum á öllum þeim svæðum sem Pabbinn hefur verið sýndur. Partur af tilkomu Afans er að Siggi Sigurjóns, sem ég hef mikið unnið með sem leikstjóra í Hellisbúanum og Pabbanum, er tilvalinn afi og var tilbúinn til að takast á við að leika hann. Við erum að byrja að æfa hér í Borgarleikhúsinu og stykkið verður frumsýnt um miðjan janúar 2011.

Viðtalið við Bjarna Hauk Þórssonar er að finna í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .