Í gær var fátt sem benti til að ný verslun yrði opnuð á næstunni í Holtagörðum, þar sem verslun IKEA var áður til húsa. Hvað þá að þar yrði opnaður á morgun tæplega 8.000 fermetra stórmarkaður Hagkaupa, með afdrepi fyrir verslunarleiða eiginmenn.

Gunnar Ingi Sigurðsson framkvæmdastjóri Hagkaupa sagðist þó ekki kvíða neinu þó ótrúlega mörg handtök væru eftir, en framkvæmdir hófust í mars.

"Þetta er bara íslenska leiðin og við höfum oft séð það svartara við fyrri opnanir á nýjum verslunum Hagkaupa."

Gunnar segist heldur ekkert kvíða því að ekki verði nægt fólk til að versla í þessari nýju Hagkaupsverslun. Stöðug aukning hafi verið í veltu undanfarin ár og langt sé síðan Hagkaup opnaði síðast nýja verslun í Smáralind árið 2001. Þá voru Íslendingar um 286.571, en eru nú um 310.000.

"Það er aukning í Smáralind og líka í Kringlunni svo Íslendingar eru enn á fullu við að versla."

Fyrir eiginmenn og kærasta sem eru orðnir hundleiðir á búðarápinu er sérstakt afdrep á bak við tjald með sjónvarpi og hægindastólum.

Þrátt fyrir opnun þessarar nýju Hagkaupsverslunar verður engin breyting á rekstrinum í Skeifunni fyrir utan að skrifstofurnar þar verða fluttar á nýja staðinn. Búið er að ráða í nær allar stöður og hafa ráðningamálin gengið framar vonum að sögn Gunnars.

Gunnar segir að margt sé öðruvísi í nýju versluninni en fólk eigi að venjast úr öðrum verslunum fyrirtækisins.

"Hér erum við að opna 2008 módelið af Hagkaupum og ég vonast til að fólk kunni að meta það."

Heimild Viðskiptablaðið.