Fjárfestingarfélagið Litís hefur fest kaup á öllu hlutafé Atorku Group í Ilsanta UAB í Litháen. Ilsanta er umboðs- og markaðsfyrirtæki fyrir lækningatæki, hjúkrunarvörur og lyf í Eystrasaltslöndunum og eru höfuðstöðvar þess í Vilnius í Litháen. Ilsanta rekur auk þess markaðsskrifstofur í Riga í Lettlandi og Tallinn í Eistlandi. Hjá félaginu starfa nú 45 starfsmenn.


Að sögn forsvarsmanna Litís er mikil uppbygging framundan í heilbrigðisgeiranum í Eystrasaltslöndunum. Ilsanta hefur verið leiðandi félag á þeim markaði síðustu árin og sjá forsvarsmenn Litís fyrir mikil tækifæri með kaupunum, auk þess sem samlegðaráhrif munu verða við þann rekstur sem Litís er með í Litháen, en Litís starfrækir nú keðju 50 apóteka í Litháen undir merkjum Farma. Farma er með 6% markaðshlutdeild á smásölumarkaði með lyf í Litháen. Hjá Farma störfuðu ríflega 250 manns þannig að hjá rekstrarfélögum Litíss starfa nú samanlagt um 300 manns.

Að sögn Inga Guðjónssonar, stjórnarformanns Litís, er unnið að því færa út starfsemi Farma inn á nýjan markað og verður væntanlega opnað í nýju landi innan skamms. Hann sagði að mikil tækifæri væru í heilbrigðisrekstri í þessum löndum og kaupin á Ilsanta renndu enn styrkari stoðum undir rekstur Litíss á þessu markaðssvæði.

Fjögurra milljarða velta

Áætluð velta Ilsanta á þessu ári er um 1,7 milljarðar króna og heildarársvelta allra hlutdeildar- og dótturfélaga Litís er áætluð tæpir 4 milljarðar króna. Í frétt félagsins kemur fram að mikill hagvöxtur hefur verið í Eystrasaltsríkjunum seinustu ár og er allt útlit fyrir áframhaldandi uppsveiflu þar sem og víðar í A-Evrópu þar sem Litís hyggst hasla sér enn frekari völl á næstu misserum.

Fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings var ráðgjafi kaupanda og Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi seljanda. Kaupverðið er trúnaðarmál. Framkvæmdastjóri Litís er Sigurður Ívarsson og stjórnarformaður er Ingi Guðjónsson.

Í febrúar síðastliðnum var greint frá kaupum Icetec, sem er félag í eigu Inga Guðjónssonar, á 61% hlut Lyfju í Litís ehf., Ingi á nú 92% eignarhlut í Litís, en Lyfja 5% hlut. Sigurður Ívarsson á 3%.