Bandaríski verslunarrisinn Wal-Mart er með fleiri starfsmenn en ameríski herinn, eða alls um 1,6 milljónir starfsmanna. Þessir starfsmenn vinna í 3.600 verslunum í Bandaríkjunum og 2.300 verslunum utan Bandaríkjanna. Það koma fleiri en 100 milljónir manna vikulega í verslanir Wal-Mart þar sem að meðaltali 228 viðskiptavinir eru afgreiddir á hverri sekúndu. Þá er talið að Wal-Mart beri eitt og sér ábyrgð á 1/10 af viðskiptahalla Bandaríkjanna við Kína.

Vakin er athygli á þessum stærðarhlutföllum í MP Molum MP Fjárfestingabanka. Þar kemur fram að hagfræðingar hafa misjafnar skoðanir á Wal-Mart en eitt er þó sameiginlegt með þeim að allir telja Wal-Mart það stórt í dag að ákvarðanir þess hafi áhrif á ameríska hagkerfið. Á síðasta ári jók Wal-Mart framleiðni ameríkumarkaðarins um 0,75% með hagstæðari samningum við birgja sína. Kaupmáttur bandarískra neytanda jókst um 118 billjónir dollara (7.400 billjónir kr.) eða um 410 dollara (26.000 kr.) á mann og innan Wal-Mart sköpuðust 210 þúsund ný störf.