Starfsmenn Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar og fjölskyldur þeirra komu saman í Smárabíói fyrir hádegi í gær, laugardag, í tilefni þess að sparisjóðirnir hafa fengið nýtt nafn, Byr ? sparisjóður. Nafnbreytingin er einn mikilvægasti áfanginn í sameiningu sparisjóðanna, sem sameinuðust formlega um síðustu áramót

Í fréttatilkynningu er haft eftir Ragnari Z. Guðjónssyni og Magnúsi Ægi Magnússyni, sparisjóðsstjóra Byrs, að nú taki formlega til starfa nýtt og afar spennandi og öflugt fjármálafyrirtæki með heildareignir sem nema rúmlega 100 milljörðum króna. Rúmlega fimmtíu þúsund einstaklingar eiga í viðskiptum við Byr og á þriðja þúsund fyrirtæki.

Byr kynnir vörur sínar og þjónustu á eigin forsendum undir vörumerki Byrs enda þótt fyrirtækið taki áfram þátt í sameiginlegu starfi sparisjóða landsins. S24, dótturfyrirtæki Byrs, kynnir sig áfram með sjálfstæðum hætti. Byr starfrækir þjónustu á átta stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Sparisjóður vélstjóra, SPV, var stofnaður 11. nóvember 1961. Sparisjóður Hafnarfjarðar, SPH, var stofnaður 22. desember árið 1902 og S24, dótturfyrirtæki SPH, var sett á stofn þann 14. október 1999.

Merki Byrs er myndgerð nafnsins, sem er skylt sögninni að bera, og felur í sér hreyfingu. Byr er hagstæður vindur í segl eða undir vængi. Merkið tekur mið af uppruna sínum þar sem rendurnar tákna SPV og SPH, sem saman mynda nýtt tákn og nýja kraftmikla heild. Uppruni er einnig dreginn fram með litanotkun. Vörumerkið á að túlka persónulegheit og framsækni. Nafnið Byr táknar meðvind í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Það er komið úr sjómannamáli; að fá byr í seglin. Það er jákvætt í eðli sínu. Hugmynd er sögð fá góðan byr þegar henni er vel tekið. Byr er sá sem ber eða hreyfir eitthvað áfram. Nafnið er íslenskt orð og beygist samkvæmt því; er eins í öllum föllum nema eignarfalli, Byrs.

Í fréttinni kemur fram að Byr er framsækið fyrirtæki á fjármálamarkaði, sem gerir einstaklingum og fyrirtækjum jafnhátt undir höfði. Hér eftir sem hingað til verður lögð áhersla á faglega ráðgjöf og persónulega þjónustu með það að markmiði að bæta hag viðskiptavina og auka veg samfélagsins í heild. Byr skilgreinir Ísland sem meginmarkaðssvæði sitt með sérstakri áherslu á höfuðborgarsvæðið. Ennfremur mun Byr telja Norðurlöndin og meginland Evrópu til markaðssvæðis síns og stunda starfsemi á því svæði. Vaxtarmöguleikar Byrs eru miklir.