Fram hefur komið að íslensk stjórnvöld hafi átt í viðræðum og leitað ráðgjafar hjá sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Þótt nauðsyn kunni oft að brjóta lög, má greina rauðan þráð í áherslum sjóðsins gegnum tíðina: Þar starfa miklir verðbólguhaukar sem setja ströng skilyrði fyrir lánveitingum. Svo ströng að ríki fallast ekki á þau nema í brýnustu neyð. Þegar ríkisstjórnir fá neyðarlán frá IMF eru sett fyrir því ákveðin skilyrði. Eins og fram kemur á heimasíðu sjóðsins eru skilyrðin sett til þess að tryggja að stjórnvöld grípi til viðeigandi aðgerða til lausnar þeim greiðsluvanda sem við er fengist og að fjármunirnir komi að notum við það en ekki sóað í annað.

Ef sérfræðingar sjóðsins meta það svo að greiðsluvandi hagkerfis sé ekki eingöngu tímabundinn eru sett fram skilyrði um róttækar aðgerðir um breytingar á hagstjórn og efnahagslegu umhverfi í viðkomandi ríki. Þrátt fyrir að hver neyðaraðstoð sé sniðin að þörfum viðkomandi lands hafa þær allar þau markmið að endurreisa greiðslujöfnuð hagkerfisins til frambúðar og leggja grunn að sjálfbærum hagvexti til lengri tíma.

Árangurstengdar greiðslur frá IMF

Flest lán IMF eru þannig útfærð að lánveitingin er háð því hvernig viðkomandi stjórnvöldum gengur að hrinda í fjramkvæmd þeim skilyrðum sem sett eru. Segja má að hér sé um nokkurs konar árangurstengdar greiðslur að ræða. Framkvæmdastjórn bankans getur krafist þess að gripið sé til ýmissa meiriháttar efnahagsaðgerða áður en nokkurt fé er látið af hendi. Eins og fram kemur á vef sjóðsins getur í þessu samhengi verið um að ræða gengisfellingu, afnám verðlagshafta eða að formlegt samþykki fjárlaga í takt við neyðaraðstoðina liggi fyrir.

Áður en lánalína frá IMF getur tekið gildi koma sjóðurinn og viðkomandi ríki sér saman um árangursmörk og viðmið sem eru bæði mælanleg og stjórnskipuleg. Hér er um ýmiss konar breytur að ræða sem tengjast framkvæmd efnahagsstefnunnar og stjórn peningamála. Einniggetur verið um að ræða ýmiss konar stjórnskipulegar umbætur, breytingar á áherslum í velferðarmálum og grundvallarbreytingar á starfsemi undirstöðuatvinnuvega.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .