Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks segir að reynsla fyrirtækisins af verkefnum á Suðurheimsskautinu hafi komið sér vel og í raun sannað ágæti Arctic Trucks í að breyta bílum fyrir gífurlega erfiðar aðstæður.

Þetta segir Emil í viðtali við Viðskiptablaðið þar sem farið er yfir rekstur fyrirtækisins en starfsemi þess er nú orðin mun meiri erlendis en hér heima.

Ef haft er að huga að Suðurskautslandið í heild er gífurlega stórt og víðfeðmt og eitt minnst rannsakaða svæði jarðar (ofan sjávar), þá er þörfin fyrir betri samgöngutæki mjög mikil. Allt eldsneyti sem notað er á Suðurskautslandinu er innflutt og þannig gríðarlega dýrt, að sögn Emils.

Hingað til hafa snjóbílar fyrst og fremst verið notaðir til að komast á milli staða. Þrátt fyrir að vera öflugir og hafa mikla burðargetu eru þeir að sögn Emils hægfara, krefjast mikils viðhalds og eyða gífurlegu magni af eldsneyti. Þannig má sem dæmi nefna að stærsti varningurinn sem þeir þurfa að draga á eftir sér er eldsneyti þegar farið er í lengri ferðir.

„Þarna eru margir vísindamenn að störfum frá ýmsum löndum, um 5-8 þúsund manns yfir sumarmánuðina. Það skiptir þá mjög miklu að komast á milli svæða með ódýrari og öruggari hætti en nú er. Með því að nota breytta bíla í stað snjóbíla verður ferðatíminn um 25-35% af því sem hann var áður og eldsneytiseyðsla minnkar um svipað hlutfall,“ segir Emil.

„Auk þess er ásókn og áhugi ferðamanna á Suðurskautslandinu sífellt að aukast þannig að við sjáum tækifæri í sölu á bílum sem breytt yrði hér á landi en fluttir þangað.“

Sem dæmi nefnir Emil að Arctic Trucks smíðaði bíla til að styðja við keppendur og sjónvarpstökulið í göngukeppni á Suðurpólinn sem fram fór árið 2008 og var sjónvarpsþáttur um keppnina, On thin Ice, sýndur á BBC.

„Bílarnir komust á einum degi það sem ráð var fyrir gert að tæki fimm daga,“ segir Emil.

„Það tekur menn í dag um 75 mínútur að komast upp á flugvöll og sækja vistir. Með jeppunum okkar mun það taka þá um korter.“

Emil segir að vísindastofnarnir víðs vegar um heim hafi haft samband við fyrirtækið og lýst yfir áhuga á að kaupa bíla. Þar er um að ræða vísindamenn frá Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Indlandi og fleiri stöðum. Enn séu stór svæði sem eftir eigi að kanna og umferð um þau eigi eftir að aukast verulega á næstu árum, bæði vegna umsvifa vísindamanna og ferðamanna.

„Við áætlum að selja a.m.k 5 fullbúna jeppa á þessu ári fyrir ævintýraferðir sem eru sambærilegar því sem gert var fyrir BBC. Þarna erum við bæði að selja okkar íslensku þekkingu og við erum nú með vöru sem menn treysta og þekkja,“ segir Emil.

_____________________________

Nánar er rætt við Emil í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .