„Í öllum meginatriðum tel ég að þessi vinna hafi gengið framar vonum frá því að hún hófst,“ segir Steinar Guðgeirsson hrl. sem verið hefur formaður skilanefndar Kaupþings frá 21. október 2008.

Hlutirnir gerðust hratt þegar bankarnir féllu. Landsbankinn féll fyrstur, 7. október 2008, og svo komu Glitnir og Kaupþing í kjölfarið næstu tvo daga á eftir. Fyrstu mánuðirnir sem skilanefndirnar voru starfandi segir Steinar að hafi verið um margt „ótrúlega viðburðaríkir“.

„Ég held að margir hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað raunverulega gerðist þegar bankarnir hrundu og hvað munaði litlu að hlutirnir hefðu þróast á enn verri veg. Á þessu tímabili hefði bönkunum getað verið lokað og þeir settir í gjaldþrotameðferð og þá hefði verið erfitt að tryggja flæði fjármagns innanlands og milli landa eins og gert var. Það tel ég að hafi bjargað landinu frá efnahagslegu öngþveiti sem er erfitt að ímynda sér hvernig hefði endað,“ segir Steinar.

Mikið afrek

Með neyðarlögunum voru búnir til nýir bankar á grunni innlendra eigna hinna föllnu banka en hinir föllnu bankar settir í greiðslustöðvun og slitameðferð. Steinar segir þetta ekki hafa verið hrist fram úr erminni.

„Þegar bankar falla úti í heimi er þeim oft einfaldlega lokað og allri starfsemi hætt. Vegna þess hvernig staðan var á Íslandi, að yfir 85% af öllu fjármálakerfinu hrundi á innan við viku, sem er auðvitað algjörlega fordæmalaust í sögunni, reyndi mikið á að halda starfseminni gangandi þegar allt var í raun þegar fallið.

Það var með miklum ólíkindum að þetta hafi í raun tekist en þegar fram líða stundir og tími gefst til að skoða málið heildstætt mun  sagan sýna hversu vel tókst til.“

Steinar segir að samskipti við viðskiptavini Kaupþings, ekki síst fyrirtæki úti í heimi, og kröfuhafa hafi verið erfið og stirð í fyrstu eftir hrunið. „Það fór mikill tími í að vernda eignir og ávinna traust í samskiptum. Það er ekkert óeðlilegt að forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa orðið fyrir skakkaföllum séu óánægðir með að viðskiptabanki þeirra hafi farið á hliðina og það var ekki óalgengt að erlend fyrirtæki töldu sig ekki þurfa að greiða af skuldum sínum.

Þetta hefur verið mikið og erfitt verkefni alveg frá hruni, m.a. að ávinna traust til að ná árangri í endurskipulagningu erlendra félaga í eigu bankans. En það hefur gengið framar vonum vil ég meina og endurheimtur á okkar eignasafni sýna að starfsfólk skilanefndar hefur náð góðum árangri.“

Allir finna fyrir áhrifunum

Oftast nær er starf þeirra sem sjá um að skipta þrotabúum ekki undir smásjánni. Frá þeim tíma er bankarnir féllu hefur íslenskt samfélag logað í illindum, ekki síst vegna mikils vantrausts á stjórnmálastéttinni, bönkunum og raunar fleiri stofnunum einnig.

Af þessum sökum hafa skilanefndirnar verið oft í brennidepli. Steinar segir að þetta hafi í raun fylgt því að sinna skilanefndarstarfinu frá því bankarnir féllu. Ekkert sé óeðlilegt við það í ljósi þess hve mikið áfallið var.

„Við lifum á þannig tímum að allir finna fyrir áhrifum af þessu mikla hruni með einhverjum hætti. Við höfum fyrst og fremst lagt á það áherslu að sinna okkar störfum eftir bestu getu og samvisku og allir hafa lagt mikið á sig á þessum tveimur árum.“

-Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.