Í Viðskiptablaðinu í dag er viðtal við Jón Helga Guðmundsson, stjórnarformann Norvikursamstæðunnar, þar sem hann rekur umsvif fyrirtækjaveldis síns en hann rekur nú þrjár bankastofnanir í Austur-Evrópu.

Allt síðan árið 1993 hefur Jón Helgi Guðmundsson,  haft mikil viðskipti í Eystrasaltslöndunum og að hluta til Rússlandi. Þau viðskipti ná enn lengra aftur í tímann eða til þess að Byko keypti timbur frá þessum löndum.

Með tímanum hefur Norvik hf. byggt upp mikil umsvif í timburframleiðslu og timburvinnslu í Lettlandi og er nú svo komið að Ísland er aðeins í fjórða sæti þegar kemur að timbursölu fyrirtækisins. Mest er selt til Japans, síðan til Bretlands, þá Hollands og að lokum Íslands. Umsvif fyrirtækisins eru gríðarleg en þess má geta að bókfært eigið fé fyrirtækjanna Norvíkur, Straumborgar og Smáragarðs, sem eru í eigu Jóns Helga og fjölskyldu, er yfir 20 milljarðar króna og er án efa sterkasta fjölskyldufyrirtæki landsins þegar kemur að eigin fé.

Eitt af félögum fjölskyldunnar, fjárfestingafélagið Straumborg ehf., er nú með ráðandi hlut í tveimur bönkum í Austur-Evrópu. Annars vegar Lateko Bank í Lettlandi og hins vegar Norvik Bank í Moskvu. Einnig hefur verið sett á stofn útibú í Armeníu undir nafninu Norvik Credit Organization, Armenia. Áætlanir eru uppi um að breyta nafni Lateko banka og nota Norvik nafnið yfir alla bankastarfsemi samstæðunnar. Er líklegt að af því verði innan skamms. Lateko banki komst í eigu Straumborgar á síðasta vetri en hann var 9. stærsti banki landsins þegar horft er til eigna um síðustu áramót. Bankinn var í 8. sæti þegar kom að hagnaði. Að sögn Jóns Helga er stefnt að því að hann verði komin í 5. sæti innan nokkurra missera.

Fyrir skömmu keypti Straumborg banka í Moskvu, Fineko, og sagði Jón Helgi að þeir hefðu fyrst og fremst verið á höttunum eftir bankaleyfi þar en þó væri um að ræða 70 manna banka og talsverða starfsemi. Nafni bankans hefur nú verið breytt í Norvik Bank. Bankinn hefur sérhæft sig í útlánum, bæði neytendalánum og bílalánum auk þjónustu við fyrirtæki.

Sú fótfesta sem Norvik hefur náð á bankamarkaði í Austur-Evrópu gæti orðið að öðru meira, segir Jón Helgi. "Þetta er líklega nóg fyrir okkur að takast á við til að byrja með en þó vil ég ekki útiloka að við horfum í aðrar áttir. Það eiga lönd eftir að opnast þarna eins og Hvíta-Rússland sem er lokað land í dag. Það er land sem er mjög nálægt þessu lettneska umhverfi sem við þekkjum orðið vel. Sömuleiðis er ekki langt til Úkraínu og hinna Eystrasaltslandanna. Ég útiloka ekki að þar verði eitthvað gert en það er ærið verkefni fyrir okkur núna að láta þetta vaxa og gera það vel sem við erum með í höndunum. Við höfum mikið tækifæri til þess. Ef við skoðum Rússland eitt og sér og þau tækifæri sem við höfum í gegnum bankann í Moskvu þá eru þau gífurlega mikil. Ef okkur vex fiskur um hrygg þar getum við fært okkur niður í fleiri borgir á því svæði."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.