Það getur tekið verulega á þolinmæðina að aka bílum í London enda er umferðarhraðinn þar sá lægsti sem þekkist í Evrópu. Þrátt fyrir aðgerðir yfirvalda til að takmarka umferð í miðju borgarinnar er meðalhraðinn ekki nema 19 km á klst.

Umferðarþunginn í miðborg Lundúna þótti ólíðandi sem og mengunin þar og því tóku borgaryfirvöld þá ákvörðun árið 2003 að leggja á umferðargjald inn í miðju hennar. Afleiðingarnar urðu þær að umferðin hefur dregist saman um 20% en þrátt fyrir það er fullkomlega ástæðulaust að vera seinn fyrir þar í borg því meðalumferðarhraðinn er eins og fyrr segir 19 km/klst sem gerir reiðhjól að skynsamlegri farkosti fyrir þá sem eru að flýta sér. Meðalhraðinn í London er 40% lægri en til dæmis í París.

Árið 2006 gerði verkfræðistofan Hönnun athugun á meðalhraða í Reykjavík fyrir skipulagsyfirvöld í borginni. Niðurstaðan var sú að meðalhraði strætisvagna væri 22 km/klst og almennur umferðarhraði að meðaltali 36,1 km/klst. Framreiknað miðað við væntanlega fjölgun farartækja í borginni og þróun umferðarmannvirkja verður meðalumferðarhraðinn í borginni árið 2024 37,1 km/klst.  Guðjón Guðmundsson ber saman umferðarhraða í nokkrum borgum Evrópu í helgarblaði Viðskiptablaðsins.