Laun hafa hækkað um 42% að meðaltali á almennum vinnumarkaði frá 2002-2007, að því er fram kemur í Launakönnun ParX viðskiptaráðgjafar IBM.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ParX.

Þar kemur fram að hækkun launa var mismunandi á milli atvinnugreina, en hún var hæst hjá fjármála- og tryggingafyrirtækjum, eða 57%.

Laun í framleiðslu og iðnaði hafa hækkað um 39% og 25% í verslun og þjónustu á sama tímabili.

Mikil hækkun hjá fjármála- og tryggingafyrirtækjum

„Athyglisvert er að sjá að á árunum 2002-2004 þróuðust laun með mjög svipuðum hætti innan allra þessara atvinnugreina, en eftir 2004 hækkuðu laun í fjármála- og tryggingafyrirtækjum mun meira en hjá framleiðslu- og iðnaðarfyrirtækjum og verslunar- og þjónustufyrirtækjum. Þetta hefur haft þýðingarmikil áhrif á launaþróun á Íslandi og verður áhugavert að sjá hvaða breytingar í viðskipta- og fjármálaumhverfi nú munu hafa áhrif á almenna launaþróun í landinu,“ segir Jón Emil Sigurgeirsson umsjónarmaður launakannana hjá ParX í tilkynningunni.

Þá segir í tilkynningunni að þróun byrjunarlauna í samanburði við þróun meðallauna getur ennfremur spáð fyrir um mögulegt launaskrið á vinnumarkaði.

Í könnun ParX kemur í ljós að byrjunarlaun hafa hækkað að meðaltali um tæp 48% árin 2002 til 2007.

„Það er nokkuð umfram meðalhækkun launa á tímabilinu og skýrist að mestu leyti á launaskriði í byrjunarlaunum hjá fjármála- og tryggingafyrirtækjum á árunum 2004 til 2007,“ segir í tilkynningunni.

Í ljós kom að byrjunarlaun í fjármála- og tryggingafyrirtækjum hækkuðu um 67% á tímabilinu.

Hjá framleiðslu- og iðnaðarfyrirtækjum höfðu byrjunarlaun hækkað að meðaltali um 51% og um 34% hjá verslun og þjónustu. Byrjunarlaun hjá fjármála- og tryggingafyrirtækjum hafa því hækkað 97% meira en byrjunarlaun hjá fyrirtækjum í verslun og þjónustu á tímabilinu frá 2002-2007.

„Aðdráttarafl bankanna hefur verið mikið síðustu ár. Það er því líklegt að launaskrið í trygginga- og fjármálafyrirtækjum hafi haft áhrif á launaskrið hjá fyrirtækjum í öðrum greinum, sem hafa þá séð launakostnað sinn hækka, jafnvel umfram greiðslugetu," segir Jón í tilkynnigunni.

Launakönnun ParX hefur verið framkvæmd árlega frá 1979. Hún er nú unnin í samvinnu við um 100 fyrirtæki og stofnanir. ParX vinnur nú að því að safna upplýsingum fyrir Launakönnun 2008 og er skilafrestur til 22. október.