Þrátt fyrir mikil áföll á árunum 2008 og 2009 var ávöxtun lífeyrissjóðanna, samkvæmt vegnu meðaltali, jákvæð um 0,4% í fyrra. Þetta kemur fram í  upplýsingum frá Landssamtökum lífeyrissjóða. Lífeyrissjóðir hafa frest til morguns til þess að skila ársuppgjörum sínum fyrir árið 2009 samkvæmt fyrirmælum frá Fjármálaeftirlitinu.

Margir lífeyrissjóðir, þar á meðal Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóður og Almenni lífeyrissjóðurinn, hafa þegar gefið það út að lífeyrisgreiðslur verði skertar. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hyggst skerða um 10%, Gildi um 7% og en líklegt er að Almenni lífeyrissjóðurinn skerði um 16,7%, ef farið er eftir tillögum frá stjórnum sjóðanna. Þá hefur Lífeyrissjóður verkfræðinga enn fremur samþykkt að skerða um 10%, annað árið í röð. Aðalfundur sjóðsins, sem fram fór fyrr í mánuðinum, varð sögulegur þar sem meirihluti fundarmanna samþykkti vantrauststillögu á stjórn sjóðsins. Hún hefur ekki enn sagt af sér. Þessi skerðing gæti kostað ríkið umtalsverða fjármuni, allt að því milljarð á ársgrundvelli, þar sem tekjutengdur lífeyrir frá ríkinu hækkar þegar lífeyrir frá lífeyrissjóðum minnkar. Þannig hefur skerðing á lífeyrisgreiðslum bein áhrif á útgjöld ríkisins. Skaðinn ljós Arnar Sigmundsson, formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða, segir ársuppgjör sjóðanna sýna nokkuð vel hver skaði sjóðanna var af  efnahagshruninu 2008. "Það sýnir þó styrk sjóðanna að þeir eru flestir með jákvæða raunávöxtun," segir Arnar. Heildareignir lífeyrissjóðanna í febrúar á þessu ári námu rúmlega 1.800 milljörðum króna, samanborið við tæplega 1.600 milljarða í lok árs 2008. Umfram verðbólgu er ávöxtun lífeyrissjóðanna því lítil miðað við venjulegt árferði. En það má með sanni segja að það hafi ekki verið fyrir hendi, undanfarin tvö ár. Undir lok árs í fyrra var eignasafn lífeyrissjóðanna verðminna að raunvirði en það var í lok árs 2008 samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands. Gjaldeyrishöftin sjóðunum dýr Eftir þær miklu efnahagsþrengingar sem alþjóðamarkaðir gengu í gegnum haustið 2008 hafa hlutabréfamarkaðir víðast hvar einkennst af miklum hækkunum. Hrunið á Íslandi kom hins vegar í veg fyrir að íslenskir lífeyrissjóðir gætu rétt úr kútnum með endurfjárfestingum á alþjóðamörkuðum. Um 30% af eignum sjóðanna nú eru erlendar eignir en heimild er til þess að vera með yfir 50% af eignum sjóðanna í erlendum eignum. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir það hafa verið "hreint skelfilegt" fyrir sjóðina að geta ekki stækkað eignarhlut sinn erlendis eftir hrunið sem varð hér haustið 2008. "Gjaldeyrishöftin hafa reynst lífeyrissjóðunum gríðarlega dýr þar sem þau hafa komið í veg fyrir að sjóðirnir hafi getað tekið þátt í uppsveiflunni sem varð á hlutabréfamörkuðum í fyrra. Fagfjárfestar eins og lífeyrissjóðir hafa víðast hvar náð að rétta úr kútnum eftir áföllin 2008. Það gera sér ekki allir grein fyrir því hvað þetta er stórt atriði fyrir lífeyrissjóðina. Gjaldeyrishöftin hafa algjörlega lokað fyrir þessar fjárfestingar og það er hreint skelfilegt."

Sjá nánari umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. fimmtudag.